Austurfrétt sagði í gær þá gleðifrétt að skíðasvæðin á Austurlandi, í Oddsdal og Stafdal, hafi ákveðið að hefja samstarf á komandi vetri. Mikilvægi samstarfs var ein af lykilniðurstöðum stefnumótsins Hoppsa bomm sem Austurbrú stóð fyrir í vor í þeim tilgangi að koma af stað samtali um framtíðarsýn fyrir svæðin.
Í fréttinni segir m.a.:
„Rætt hefur verið um náið samstarf og samvinnu skíðasvæðanna tveggja á Austurlandi um margra ára skeið en loks nú hefur tekist samkomulag um samræmda gjaldskrá svæðanna sem og að aðgangspassar að einu svæðinu gildi líka á hinu. Hingað til hafa skíðaunnendur þurft að greiða sérstaklega á bæði svæðin sem um ræðir og gjaldskrá þeirra verið mismunandi milli ára. Löngum hefur verið talið hagkvæmt, ekki hvað síst varðandi aukna vetrarferðamennsku, að hægt verði að njóta beggja svæða án þess að greiða aðgang að þeim báðum.
Þetta er nú orðið að raunveruleika og tekur gildi strax við opnun skíðasvæðanna tveggja á nýju ári. Slíkt fyrirkomulag var samþykkt í Fjarðabyggð í byrjun mánaðarins og sveitarstjóri Múlaþings sagði á sveitarstjórnarfundi í dag að þetta væri orðið að veruleika þeim megin líka.“
Sjá fréttSamstarfið er mikið fagnarefni og skref í frekari uppbyggingu skíðasvæða í landshlutanum. „Nú nýtast svæðin í heild betur fyrir heimamenn en einnig er grunnur lagður að aukinni vetrarferðamennsku. Við sitjum á nánast ónýttri auðlind, með fallegustu og skemmtilegustu skíðasvæði landsins, með ósnortið útsýni yfir firði og fjallatinda þar sem þú getur skíðað fjölbreyttar leiðir jafnvel frá fjallatoppi niður að sjó. Það eru ekki margir staðir í heiminum sem hafa þetta. Ég hef fulla trú á því að með markvissri markaðssetningu gætu skíðasvæðin orðið einn af megin þáttunum í ferðaþjónustu á Austurlandi yfir vetrarmánuðina,“ segir Alexandra Tómasdóttir, verkefnastjóri í markaðsmálum.
Undir þetta tekur Dagmar Ýr Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar. „Þetta sýnir hvað samstarfsviljinn er ríkur á Austurlandi og við urðum vör við það á stefnumótinu Hoppsa bomm sem hafði það yfirlýsta markmið að draga fram hvaða tækifæri heimamenn á Austurlandi sjá í eflingu þessara svæða. Fyrir okkur hjá Austurbrú er þetta einstaklega ánægjulegt því það er eitt af meginhlutverkum okkar að skapa vettvang fyrir Austfirðinga að ræða saman, auka samvinnu og tryggja að við róum öll í sömu áttina.“
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn