Í nýjasta þætti Austurlands hlaðvarps ræðum við Sóknaráætlun Austurlands 2025-2029 og hvað hún þýðir fyrir samfélagið okkar. Viðmælandi þáttarins er Urður Gunnarsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, sem leiddi vinnuna við áætlunina.
Sóknaráætlunin, sem var formlega undirrituð í janúar 2025, er stefnumótun fyrir næstu fimm ár og hefur það markmið að bæta innviði, styrkja atvinnulíf og efla lífsgæði Austfirðinga. En hvernig tryggjum við að hún verði ekki bara enn eitt skjalið sem endar í skúffunni?
Eitt af því sem vakti sterk viðbrögð í vinnunni við áætlunina var lýðfræðileg þróun. „Við erum að eldast sem samfélag og unga fólkinu fjölgar ekki eins hratt og við þyrftum,“ segir Urður. „Þetta snertir alla þætti samfélagsins – atvinnulífið, velferðarþjónustuna, menninguna og samgöngurnar. Ef við ætlum að breyta þessari þróun, þá þurfum við að spyrja: Hvað gerir Austurland aðlaðandi fyrir nýja íbúa?“
Til að bregðast við leggur áætlunin áherslu á bætta innviði og fjölbreyttara atvinnulíf. „Við þurfum öflugar samgöngur og fjarskipti, þannig að störf án staðsetningar verði raunhæfur kostur. Við viljum líka efla verknám og háskólanám, styðja við nýsköpun og gera Austurland að betri stað til að búa og starfa á,“ útskýrir Urður.
Mikilvægt er að áætlunin skili sér í aðgerðum og að samfélagið finni fyrir breytingum. „Við höfum lagt áherslu á að dreifa ábyrgðinni – Austurbrú tekur ákveðna þætti, sveitarfélögin vinna að öðrum og ákveðin mál þarf að þrýsta á ríkið með,“ segir Urður. „Við þurfum að forgangsraða skynsamlega og fylgja verkefnunum eftir þannig að þau komist í framkvæmd.“
Að hennar mati skiptir mestu máli að fólk sjái raunverulegar breytingar í sínu nærumhverfi. „Sóknaráætlunin er ekki markmið í sjálfu sér – hún er tæki til að byggja upp sterkara samfélag. Ef okkur tekst að láta verkin tala, þá vitum við að við erum á réttri leið.“
Nánari upplýsingarFrá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn