Á Austurlandi verður samheldið og fjölbreytt samfélag fólks sem hefur tækifæri til að nýta og þróa þekkingu sína, býr við örugga heilbrigðisþjónustu og heilsueflandi umhverfi.
Viðfangsefni markmiðanna snúa að því að Austurland sé:
Svæði þar sem sveitarfélög, fyrirtæki og íbúar sameinast um að byggja upp fjölbreytt og öflugt samfélag.
Svæði þar sem víðtæk þekking, skapandi hugsun og vaxandi nýsköpun einkennir öll svið samfélagsins.
Svæði þar sem að íbúar hafa gott aðgengi að grunnþjónustu, tækifærum til heilsueflingar og njóta góðrar heilbrigðisþjónustu.
Dæmi um stefnumál
Bætt aðgengi að góðri grunnþjónustu.
Stuðlað verði að því að grunnþjónusta sé veitt sem næst íbúum og að jafnaði ekki í meira en 60 mínútna
akstursfjarlægð fyrir íbúa svæðisins. Fjarþjónusta verði í boði þar sem það næst ekki.
Við staðsetningu þjónustu verði tekið tillit til byggðamynsturs og stærðar þjónustukjarna.
Íbúum fjölgi og jafnvægi náist í aldurssamsetningu og kynjaskiptingu mannfjöldans á Austurlandi.
Unnin verði áætlun sem miðar að því að styðja við, virkja og nýta mannauð ólíkra samfélagshópa, sérstaklega þeirra sem eru af erlendum uppruna.
Unnið verði að því að efla stað – og fjarnám á háskólastigi.
Boðið verði upp á samvinnurými fyrir einstaklinga og sprotafyrirtæki í þéttbýliskjörnum og í dreifbýli þar sem möguleikar á samstarfi geta skapast.
Hugað verði að lýðheilsu og mögulegum áhrifum á hana við alla stefnumótun og skipulagsgerð.
Staða
Staða
Leikskólar og grunnskólar eru í flestum 11 byggðakjörnum svæðisins. Góð þátttaka er í skipulegu íþróttastarfi barna og unglinga. Tveir framhaldsskólar; annar með verknám og báðir bjóða bóknám. Háskóli Íslands starfar á Hallormsstað með námsbraut í Sjálfbærni og sköpun og rekur fræðasetur á Egilsstöðum og Breiðdalsvík og þar er Borkjarnasafn Íslands. Vettvangsnám og rannsóknir á háskólastigi eru stundaðar í Skálanesi í Seyðisfirði. Útibú stofnana eru nokkur og séraustfirskar stofnanir, s.s. Gunnarsstofnun og Náttúrustofa Austurlands. Fjarnám við háskóla er þjónustað með samningi við ráðuneyti
gegnum Austurbrú.
Umhverfi nýsköpunar er veikburða. Hlutfallslega fáir sækja í Rannís- og samkeppnissjóði og aðstaða er af skornum skammti. Þó er FabLab í Neskaupstað og samvinnuhús farin að skjóta upp kollinum á fáeinum stöðum. Uppbyggingarsjóður Austurlands styrkir um 30 atvinnu- og nýsköpunarverkefni árlega.
Heilbrigðisstofnun Austurlands starfar á öllu Austurlandi með 10 starfsstöðvar, 1 sjúkrahús og 6 hjúkrunarheimili.