Stjórn Byggðastofnunar heimsótti Austurland í síðustu viku og átti góðan fund á Stöðvarfirði sem haldin var í Samkomuhúsinu þar sem allur matur, bakkelsi, kaffi og hádegismatur voru frá Stöðvarfirði. Á fundinum fékk stjórnin m.a. kynningu á byggðaverkefninu Sterkur Stöðvarfjörður og svo fór stjórnin í nokkrar heimsóknir og kynnti sér atvinnu- og mannlíf í firðinum fagra.
Þetta var hin skemmtilegasta dagskrá sem stjórninni var boðið upp á. Brauðdagar Deighús sáu um meðlæti sem skolað var niður með kaffi frá Kvörn og í hádegismatinn voru fiskibollur frá Ástu Snædísi Guðmundsdóttur sem fékk einmitt nýverið styrk frá Sterkum Stöðvarfirði til kaupa á tækjum svo hægt sé að hefja magnframleiðslu á fiskibollunum ljúffengu.
Á fundinum kynnti Valborg Ösp Árnadóttir Warén, verkefnastjóri Sterks Stöðvarfjarðar, verkefnið. Fór yfir stöðuna í dag og framtíðaráform. Gunnar Jónsson, bæjarritari Fjarðabyggðar, kynnti aðkomu sveitarfélagsins að verkefninu en að kynningum loknum var farið á vettvang og nokkrir kraftmiklir sprotar á Stöðvarfirði sóttir heim.
Fyrst var farið í Sköpunarmiðstöðina og fyrsta stopp var hjá kaffibrennslunni Kvörn þar sem Lukasz Stencel tók á móti gestum. Hann sagði frá fyrirtækinu sínu og bjó til sterkt og einstaklega bragðgott kaffi fyrir gestina.
Brauðbakarinn Kimi Tayler sagði frá sínu fyrirtæki, Brauðdagar deighús, og talaði um þýðingu þess að fá styrk úr frumkvæðissjóði Sterks Stöðvrfjarðar. Það hefði verið mikil lyftistöng fyrir reksturinn.
Solveig Friðriksdóttir kynnti slökunarpúðanna sína og sagði frá heilsunáskeiðum sem hún hefur haldið á Stöðvarfirði fyrir styrk úr sjóðnum. Silja Lind Þrastardóttir, verkefnissjóri Fræ Sköpunareldhúss, kynnti verkefni um iðnaðareldhús sem stendur til að koma upp í Sköpunarmiðstöðinni og loks gekk Vinny Wood með hópinn um húsið, sýndi ný rými en mestan áhuga vakti Studio Silo og nýjasta fyrirtækið Vinyl Cut sem sérhæfir sig í að skera tónlist beint á vinyl og ku vera eina fyrirtækið á Íslandi sem býður upp á slíka þjónustu í dag.
Eftir heimsóknina tók listakonan Rósa Valtingojer á móti stjórninni í Gallerí Snærós. Rósa sagði frá sögu safnins og sýndi það sem hún og móðir hennar, Sólrún Friðriksdóttir, eru að hanna.
Dagurinn endaði svo í Steinasafni Petru þar sem hópnum var boðið kaffi og nýbakaða kanilsnúða. Unnur Sveinsdóttir sagði frá sögu safnsins og fengu gestirnar ítarlega og skemmtilega leiðsögn um þetta stórmerkilega safn.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn