Stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) samþykkti samhljóða bókun á stjórnarfundi sínum, þann 12. desember, um málefni Menntaskólans á Egilsstöðum, í ljósi fyrirhugaðra breytinga á stjórnsýslu framhaldsskólastigsins.
Bókunin er eftirfarandi:
„Samband sveitarfélaga á Austurlandi, SSA, lýsir miklum áhyggjum af stöðu og sjálfstæði Menntaskólans á Egilsstöðum vegna fyrirhugaðra en óljósra breytinga á fyrirkomulagi menntamála á framhaldsskólastigi, ekki síst í ljósi óboðlegra vinnubragða á dögunum þegar tilkynnt var fyrst í fjölmiðlum að ráðning farsæls skólameistara ME yrði ekki framlengd. Menntaskólinn á Egilsstöðum gegnir stóru hlutverki í menntun og byggðafestu á Austurlandi og mikilvægt er að ekki sé hróflað að ástæðulausu við því góða starfi sem þar er unnið.
Stjórn SSA lýsir fullum stuðningi við opið bréf skólanefndar Menntaskólans til mennta- og barnamálaráðherra þar sem farið er ítarlega yfir málið og réttmætar spurningar lagðar fram. Kallar stjórnin eftir svörum ráðherra við spurningum skólanefndarinnar um fyrirhugaðar svæðisskrifstofur og tekur undir áhyggjur af þeirri óvissu og ólgu sem þessi áform eru að valda. SSA skorar á ráðuneytið að bregðast við sem allra fyrst og vinna að lausn með skólasamfélaginu en ekki gegn því. Farsælt fyrsta skref væri að þiggja boð skólanefndar Menntaskólans á Egilsstöðum um samstarf en slíkt samráð við skólanefndir virðist hafa verið af skornum skammti hingað til.“
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn