Stöðvarfjörður hefur alla burði til að eflast sem ferðamannastaður og menningar- og nýsköpunarbær. Hægt er að styrkja byggðina með því að nýta tækifæri á sem flestum sviðum og byggja á því sem þegar er til staðar. Leggja ætti áherslu á góða aðstöðu til útivistar og fjölskyldusamveru og mikilvægt er að auka framboð á íbúðarhúsnæði.
Þetta eru meginskilaboð íbúaþings sem haldið var á Stöðvarfirði, helgina 5. – 6. mars. Með því hófst þátttaka Stöðvarfjarðar í verkefninu „Brothættar byggðir“ og er þetta þrettánda byggðarlagið þar sem unnið er eftir þessu verklagi Byggðastofnunar. Vel var mætt til þings í blíðviðri, en um 60 manns á öllum aldri tóku þátt. Þetta er þriðja verkefni Brothættra byggða sem farið er af stað með á Austurlandi en áður hafa Breiðdalsvík og Borgarfjörður eystri tekið þátt. Verkefnið mun heita „Sterkur Stöðvarfjörður“.
Margt var rætt á þinginu en það málefni sem varð efst í forgangsröðun þátttakenda var að nýta svonefndan Bala betur og búa þar til fjölskylduvænt og aðlaðandi útivistarsvæði t.d. með fjölbreyttum leiktækjum, bekkjum og skjólveggjum. Göngustígar ættu einnig að vera forgangsatriði, m.a. að tengja saman svæði til útivistar með góðum gönguleiðum og leggja áfram áherslu á skógrækt. Þá vantar íbúðar- og atvinnuhúsnæði á Stöðvarfirði og kom fram á þinginu að íbúar vilji ekki verða „sumarbústaðabyggð“.
Horft er til margvíslegrar atvinnusköpunar t.d. framleiðslufyrirtækja og kallað var eftir öflugri nettenginu vegna fjarvinnu. Stöðfirðingar sjá aukin tækifæri í ferðaþjónustu m.a. með góðu tjaldsvæði, fjölbreyttri afþreyingu og kraftmikilli markaðssetningu. Áhugi er á iðnaðareldhúsi sem nýst gæti fólki í eigin matvælaframleiðslu og rædd voru tækifæri í safnamálum. Stungið var upp á að á Stöðvarfirði verði miðstöð fornleifarannsókna á Austurlandi en fornleifarannsóknir í Stöð benda til þess að saga landnáms sé eldri en hingað til hefur verið talið.
Auk góðra göngustíga dreymir Stöðfirðinga um fleiri lífsgæði sem íbúar og gestir geti notið. Þar má nefna lengri opnunartíma sundlaugar og að koma upp sánabaði á „Öldunni“ sem er vinsælt svæði fyrir sjósund. Þá er áhugi á að bæta aðstöðu til íþróttaiðkunar og bæta almenningssamgöngur og miðla upplýsingum um þær m.a. vegna sóknar barna á íþróttaæfingar annars staðar.
Kallað var eftir úrbótum á Suðurfjarðarvegi og að gerð verði göng milli Stöðvarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Fram komu óskir um að bæta ýmsa þjónustu og koma upp aðstöðu fyrir fagfólk sem kemur í skemmri tíma, s.s. sjúkraþjálfarar, hársnyrtar og fleiri. Spurningunni: „Hvað eigum við?“ var varpað fram á þinginu og kom í ljós að það er margt eins og engum ætti að koma á óvart. Á Stöðvarfirði eru einstakar náttúruperlur, margvíslegir innviðir, mannauður og góður andi meðal bæjarbúa. Fram kom að Stöðfirðingar taka vel á móti nýju fólki. Þetta er sú auðlegð sem unnið verður með áfram í verkefninu sem á þinginu hlaut heitið „Sterkur Stöðvarfjörður“.
Að Brothættri byggð á Stöðvarfirði standa Byggðastofnun, Fjarðabyggð, SSA, Austurbrú og íbúar á Stöðvarfirði. Verkefnisstjórn (sjá mynd) er skipuð fulltrúum þessara aðila. Frá vinstri: Bjarni Stefán Vilhjálmsson, Alda Marín Kristinsdóttir, Bryngeir Ágúst Margeirsson, Eydís Ásbjörnsdóttir, Kristján Þ. Halldórsson, Valborg Ösp Á. Warén (verkefnisstjóri), Sigríður Elín Þórðardóttir og Helga Harðardóttir. Á myndina vantar Valgeir Ægi Ingólfsson.
Gengið hefur verið frá ráðningu Valborgar Aspar Warén sem verkefnisstjóra Brothættra byggða á Stöðvarfirði. Hún er með BA-próf í stjórnmálafræði og menntun í margmiðlunarhönnun frá NoMa í Danmörku. Síðustu ár hefur hún aðallega starfað í fjármálageiranum og síðan 2020 hjá alþjóðlega fjártæknifyrirtækinu Rapyd Europe. Hún er alin upp á Egilsstöðum en ættuð frá Eskifirði og Finnlandi. Hún hefur búið í Garðabæ síðan 2012, á tvö börn en mun flytja austur á Stöðvarfjörð innan tíðar. Valborg hefur mikinn áhuga á stjórnmálum og hefur tekið virkan þátt í sveitarstjórnmálum í Garðabæ. Þá hefur hún áhuga á hjólreiðum og alls konar útivist s.s. kajakróðri og fjallgöngum.
Valborg hefur störf í sumar.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn