Ríkisstjórnin fundaði með fulltrúum sveitarfélaga á Austurlandi í gær þar sem rædd voru helstu mál sem brenna á Austfirðingum. Dagmar Ýr Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, segist afar ánægð með fundinn og að sveitarstjórnarfólk á Austurlandi hafi verið með skýr skilaboð um þau mál sem helst brenna á Austfirðingum.
Á fundinum var m.a. rætt um atvinnumál, orkumál, öryggismál, heilbrigðismál og opinbera þjónustu á svæðinu en eins og við var að búast voru samgöngumál fyrirferðamikil í máli Berglindar Hörpu Svavarsdóttur, formanns SSA.
Í ræðu sinni gerði hún að umtalsefni þá gríðarlegu verðmætasköpun sem á sér stað á Austurlandi en fyrir fundinn lét SSA gera efnahagsgreiningu á landshlutanum sem verður aðgengileg á vef Austurbrúar í næstu viku. Hún kallaði eftir aukinni innviðauppbyggingu á Austurlandi, að landshlutinn væri efnahagslega mikilvægur fyrir þjóðarbúið og því hvorki óeðlilegt né ósanngjarnt að horft væri á ríkar þarfir Austurlands þegar kæmi að innviðauppbyggingu. Þannig væri hægt að ýta undir fjölgun fólks á svæðinu og eins að taka á móti ferðamönnum með enn betri og öruggari hætti.
Nánar verður fjallað um skilaboð SSA til ríkisstjórnar Íslands í næstu viku á vef Austurbrúar og víðar.
Dagmar Ýr Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, var sátt við fundinn og ánægð með framtak ríkisstjórnarinnar að heimsækja Austurland. „Það okkur mikilvægt að geta átt þetta beina samtal við ráðamenn þjóðarinnar. Það er alveg ljóst að við hér á Austurlandi erum lengst í burtu frá höfuðborginni og því hætt við að rödd okkar heyrist ekki jafn hátt og þeirra sem eru nær stjórnsýslunni. En sveitastjórnarfólk á Austurlandi var með skýr skilaboð á fundinum um þau málefni sem á okkur brenna.“
Fyrir fundinn með sveitarstjórnarmönnum hélt ríkisstjórnin sinn árlega sumarfund sem hafa undanfarin ár verið haldnir utan Reykjavíkur en þetta er í sjötta sinn sem það er gert. Á síðasta ári fór sumarfundurinn fram á Vestfjörðum en áður hefur ríkisstjórnin haldið sumarfund sinn í Snæfellsbæ, í Mývatnssveit, á Hellu og á Suðurnesjum og nú var röðin komin að Austurlandi.
Á fundinum var m.a. samþykkt að veita viðbótarstyrk vegna flutnings menningarsögulegra húsa á Seyðisfirði af hættusvæðum. Verður verkefnið styrkt um alls 200 milljónir króna á árunum 2024 og 2025 en fjárhæðin bætist við þær 190 milljónir sem þegar hafa verið veittar til verkefnisins.
Þá var samþykkt að framlengja verkefni um uppbyggingu atvinnulífs á Seyðisfirði sem ráðist var í í kjölfar hamfaranna í desember 2020. Verður verkefnið stutt um 25 milljónir króna sem bætast við þær 215 milljónir sem þegar hafa verið veittar í byggðastyrk.
Einnig var ákveðið að flýta upphafi framkvæmda við ofanflóðavarnir á Norðfirði um eitt ár og þær hefjist 2024 í stað 2025. Auk þess sem framkvæmdir við ofanflóðavarnir á Seyðisfirði hafa gengið hraðar en áætlað var og heimiluð hefur verið 150 milljóna króna aukning til þeirra á þessu ári til að flýta verkefninu.
Þá má geta þess að ríkisstjórnin var einnig viðstödd athöfn við Hótel Hérað á vegum Múlaþings og verkefnisins Römpum upp Ísland. Alls hafa verið gerðir rúmlega 800 rampar á landinu, þar af 46 á Austurlandi.
Mynd efst: Sveitarstjórnarfólk á Austurlandi ásamt ráðherrum í ríkisstjórn Íslands. Myndir: EÖG.
Sjá frétt um fundinn frá forsætisráðuneytinu
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn