Síldarvinnslan hefur á undanförnum tveimur árum byggt upp markvissa og umfangsmikla fræðslu fyrir sjómenn og starfsfólk í landi og segir Hákon Ernuson, starfsmannastjóri fyrirtækisins, að sú vinna hafi tekið stórt stökk fram á við þegar fyrirtækið fékk fræðslustjóra að láni frá Austurbrú.
Verkefnið er liður í þjónustu Austurbrúar við fyrirtæki og stofnanir á Austurlandi þar sem sérhæfðir ráðgjafar í vinnustaðafræðslu greina fræðslu- og þjálfunarþarfir fyrirtækja og styðja við skipulagða sí- og endurmenntun starfsfólks. Stuðst er við Markviss aðferðina, kerfisbundna greiningaraðferð sem hjálpar fyrirtækjum að sjá skýrlega tækifæri til uppbyggingar.
Hægt er að sækja um styrk til starfsmenntasjóða fyrir verkefnið – og veitir Austurbrú fyrirtækjum aðstoð við umsóknir. Hljóti umsóknin brautargengi hjá sjóðunum greiða þeir ferlið við fræðsluáætlanagerðina að fullu.
Sótt er um fyrir fræðslugreiningunni í starfsmenntasjóði sem greiða ferlið að fullu ef það er samþykkt.
„Við höfum lengi átt gott samstarf við Austurbrú,“ segir Hákon. „En árið 2023 ákváðum við að setja fræðslumál í fastari farveg og vinna eftir heildstæðri fræðsluáætlun. Þá tókum við ákvörðun um að fá fræðslustjóra að láni og hefja formlega þarfagreiningu.“
Í upphafi verkefnisins skipaði Síldarvinnslan stýrihóp með fulltrúum úr öllum deildum fyrirtækisins. Austurbrú vann síðan með hópnum að ítarlegri greiningu – könnunum, spurningalistum og samtölum við starfsmenn í landi og sjómenn um borð.
„Við fengum heilmikið af gögnum um hvað starfsfólkið sjálft taldi mikilvægt,“ segir Hákon. „Þetta var lykilatriði. Þegar fólk fær raunveruleg áhrif á mótun fræðslunnar verður áhuginn og þátttakan allt önnur.“
Út úr greiningunni komu tvær fræðsluáætlanir – fyrst fyrir sjómenn og síðan fyrir starfsfólk í landi. Þær hafa orðið grunnurinn að fjölbreyttu og lifandi fræðslustarfi: skyndihjálp, HACCP, jákvæð samskipti, gervigreind, þrívíddarprentun, fjármál heimilanna, stjórnunarhæfni og Power BI eru aðeins brot af því sem boðið hefur verið upp á.
„Þetta eru ekki bara tæknileg námskeið tengd starfinu,“ segir Hákon. „Þetta snýst líka um hópefli, framtíðarhæfni og að efla starfsfólkið heildrænt. Gervigreindarnámskeiðið er t.d. hugsað til framtíðar – að undirbúa starfsfólkið fyrir það sem er að gerast og mun gerast á vinnumarkaðnum.“
Reynsla Síldarvinnslunnar samræmist vel því sem mörg fyrirtæki hafa upplifað í verkefninu. Í kjölfar markvissrar fræðslu hefur skapast aukin framleiðni og virkni, skýrari stefnumótun og markmiðasetning, betri nýting á nýrri tækni, bætt samvinna bæði innan fyrirtækisins og við ytri aðila og aukin starfsánægja og virkni á vinnustaðnum. Með reglubundinni endurmenntun verður starfsemin markvissari og öflugri, og starfsfólkið upplifir meira svigrúm til að vaxa og þróast í starfi.
Austurbrú býður einnig upp á sérsniðin námskeið, raunfærnimat, ráðgjöf um námsleiðir og uppbyggingu fræðsluáætlana. Fyrirtæki geta sótt um styrki til starfsmenntasjóða í Áttina fyrir fræðsluverkefnin – og fær Austurbrú umsækjendum í lið og styður við ferlið frá upphafi til enda.
Síldarvinnslan hyggst halda verkefninu áfram næstu ár og endurnýja þarfagreininguna til að fylgja breytingum í atvinnulífi og samfélagi.
Aðspurður hvort hann myndi mæla með verkefninu við önnur fyrirtæki svarar Hákon án þess að hika:
„Algjörlega. Þetta skilar sér margfalt til baka. Við fáum fræðslu sem starfsfólkið sjálft bað um, og þá verður þátttakan meiri og árangurinn skýrari. Þetta er eitthvað sem öll fyrirtæki ættu að skoða – stór sem smá – og við treystum Austurbrú 100% til að halda utan um þetta.“
Ef fyrirtækið þitt hefur áhuga á að fá fræðslustjóra að láni, greina fræðsluþarfir eða hefja markvissa uppbyggingu í sí- og endurmenntun, hvetur Austurbrú þig til að hafa samband. Ráðgjafar okkar veita fyrirtækjum leiðsögn í ferlinu, aðstoða við styrkumsóknir til starfsmenntasjóða og styðja við að skapa öfluga og framtímarétta fræðslustarfsemi á vinnustaðnum.
Hrönn Grímsdóttir
Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir
Úrsúla Manda Ármannsdóttir
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn