Nokkrir nemendur í Menntaskólanum á Egilsstöðum tóku þátt í framtíðarsmiðju á vegum BRAS um aðgerðir í loftslagsmálum sem fram fór í lok október og byrjun nóvember.
Eins og við er að búast þá veit unga fólkið okkar alveg hvað þarf að gera og breytast til þess að framkvæma alvöru aðgerðir í loftslagsmálum.
Þetta reddast þegar
Þetta reddast hins vegar ekki
Þetta eru mikilvæg skilaboð frá nemendum Menntaskólans á Egilsstöðum til stjórnvalda, samfélaga og okkar sem einstaklinga en nokkrir nemendur skólans tóku þátt í Framtíðarsmiðju BRAS – Menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi, sem haldin var í samstarfi við ME, Landvernd og Írisi Lind Sævarsdóttir, listmeðferðarfræðing.
Í fyrri hluta smiðjunnar fræddi Guðrún Schmidt, sérfræðingur hjá Landvernd, nemendur um loftslagsmálin vítt og breitt, fór yfir hugtökin sem við heyrum dags daglega, eins og sjálfbæra þróun, heimsmarkmiðin og loftslagshamfarir af mannavöldum og þau voru síðan sett í samhengi við daglegt líf. Þá fór Guðrún yfir framleiðsluhætti, neyslu, hamingju og lífsgildi og ræddi við nemendur um getu til aðgerða og þeirra framtíðarsýn. Í seinni hluta fræðslunnar ræddu Guðrún og Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir, sem einnig er sérfræðingur hjá Landvernd, um vistspor, ungt umhverfisfréttafólk, grænþvott og falsfréttir. Í bæði hópa- og einstaklingsvinnu fóru nemendur í gegnum ákveðið ferli þar sem þeir orðuðu fyrst sínar áhyggjur, bjuggu síðan til sína framtíðarsýn, settu sér svo markmið í átt að framtíðarsýninni og enduðu á að setja niður sína eigin aðgerðaáætlun til að ná markmiðunum. Farið var í gegnum allt efnið á mjög fjölbreyttan hátt, með fyrirlestrum, leikjum, spjalli, hópverkefnum og lögð var áhersla á virkni nemenda.
Íris Lind Sævarsdóttir leiddi seinni hluta smiðjunnar og þar fengu nemendur tækifæri til að leika sér í gegnum sköpun og flæði og leiða hugann að því hvernig þeir sjá framtíðina fyrir sér. Bæði sem einstaklingar en einnig sem samfélag og hver væru brýnustu verkefni samtímans. Áhrif mengunar í heiminum voru nemendum einna mest hugleikin og þörfin fyrir að skapa ekki meiri úrgang við vinnuna var þeim mikilvæg. Þar af leiðandi urðu til verkefni úr endurvinnsluefni sem féll til innan skólans og í smiðjunni fæddust tvö líkön að samfélögum. Annars vegar var búið til samfélag sjálfbærni úr náttúrulegum efnum eins og timbri, laufi og greinum og hins vegar samfélag mengandi borgar úr efni sem finna mátti í endurvinnslutunnum skólans.
Nemendur og leiðbeinendur nutu einnig dyggrar aðstoðar Hildar Bergsdóttur, félagsráðgjafa hjá ME, en hún heldur úti verkefni á vegum skólans þar sem aðferðir náttúrumeðferðar, reynslunáms og útivistarævintýra eru nýttar til sjálfseflingar nemenda og náttúruvernd því nátengt viðfangsefni. Þeir nemendur sem tóku þátt í smiðjunni unni sér inn eina einingu fyrir þátttökuna.
Nemendur nýttu sér svo þessi sköpunarverkefni til þess að koma sínum skilaboðum á framfæri, bæði um það hvað þarf að gera í stóru samhengi á vegum stjórnmála en ekki síður um það sem hvert og eitt okkar á að leggja áherslur á. Skilaboð nemenda eru skýr, við þurfum að gera róttækar breytingar og skapa okkur annan lífsstíl.
Það er samdóma álit allra sem komu að smiðjunni að hún hafi heppnast einstaklega vel og eru vonir bundnar við það að mögulega verði hægt að stækka hana enn frekar og keyra aftur á næsta skólaári.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn