Þessi sami viðmælandi sagði mikilvægt að aðrir skólar ykju framboð á fjarnámi, að þetta væru allt „flottir“ skólar og tiltók sérstaklega endurmenntunarsvið Háskóla Íslands. Þeim hafi hins vegar gengið misjafnlega að koma til móts við þarfir nemenda á landsbyggðinni.

Viðmælandi frá stóru iðnfyrirtæki hafði þetta að segja um námsframboð háskólanna:

„Þegar kemur að menntun og símenntun og endurmenntun fyrir sérfræðinga – háskólamenntað fólk – eru allir að fara suður til að leita sér að menntunnar, hvort sem það eru styttri námsleiðir, diplómanám eða hvað sem er. Það fer allt út fyrir Austurland. Einhverjir sem fara í leiðtogaþjálfun til Akureyrar, verkefnastjórnun. Mitt fólk bara í EHÍ, HÍ eða HR. Það er mjög kostnaðarsamt, flug og allt það, og við styrkjum fólk til náms svo framarlega sem það nýtist í starfi. Nám sem við styrkjum er alltaf kostnaðarsamt því við erum að sækja þetta allt meira og minna út fyrir svæðið. Þetta er ósköp einfalt- það vantar algerlega námsframboð – lengra eða styttra nám, námskeið.“

Þegar sami viðmælandi var beðinn að setja sig í aðrar stellingar og svara sem „venjulegur“ íbúi á Austurlandi hafði hann þetta að segja:

„Ég held að menn geti gert meira á svæðinu. Ég held að við séum enn hefðbundin á þessu sviði, eins og svo mörgum öðrum. Við erum að „fara í nám“ sem þýðir að við tökum okkur upp og byrjum upp á nýtt, flytjum á milli landshluta eða til útlanda. Við getum gert meira hér heima. Við getum tekið háskólanám alls staðar úr heiminum, meira eða minna með því að nýta þá tækni sem í boði er. Ég held að það sé ekkert óhollt að sækja sér menntun og fara af staðnum. Þá færðu meira en bara það að bæta við þig gráðu eða auka þannig þekkingu þína – nýtt umhverfi, ný samskipti, allt þetta auðgar líka. Þú getur gert mikið með tækninni en auðvitað er ekki slæmt að fara að heiman. Það versta sem er, og það segi ég sem foreldri tveggja ungra kvenna sem eru aldar upp að stórum hluta til úti á landi, að þær fóru í nám – suður og til útlanda – en hvorug þeirra skilaði sér heim. Báðar eru með menntun sem væri fínt að hafa hérna en þegar þú ert búin að prófa að lifa og búa í stóru samfélagi, í stærri veruleika, þá verða heimahagarnir svolítið „þröngir“ og manni finnst valmöguleikarnir, félagslega en sérstaklega faglega, þrengja að sér.“

Þegar spurt var frekar um framboð náms, hvers viðmælendur söknuðu, fóru svörin að mestu eftir atvinnugrein viðkomandi. Viðmælandi hjá sveitarfélagi sem hafði með málefni fatlaðra að gera sagði skort á iðjuþjálfum og þroskaþjálfum en fulltrúar frá stórum iðn- og sjávarútvegsfyrirtækjum kölluðu eftir verk- og tæknimenntuðu fólki.

Einn viðmælandi sagði að það þyrfti nám sem tengdi saman rannsóknarmenntun og frumkvöðlafræðslu:

„Okkur vantar fólk sem er svona rannsóknarmiðað, fólk sem skoðar mismunandi hráefni. Það þarf líka do-era á móti. Ef ég hugsa t.d. um skógrækt eru bændur að planta skóg, sem er mjög mikilvægt, en ennþá er ofsalega lítið unnið með hráefnið sjálft nema þá að kötta það niður og smíða. Það þarf líka fólk til að leysa þetta upp í virk efni og gera úr því þannig vöru. Það þarf að taka svona hráefnisflokka alveg frá a til ö og skoða möguleikana í þeim.“

Einn þeirra sagði þó að hann óttaðist að endurnýjun atvinnubílstjóra væri ekki nógu hröð, réttindanámið sé dýrt og erfitt að fá ungt fólk í slíkt nám. Viðmælandi úr verktakageiranum orðaði þetta þannig að ef „rétt“ vinnuafl væri til staðar, þ.e. „hæfir Íslendingar“ með vinnuvélaréttindi og meirapróf, væri hægt að fjölga starfsfólki um 5-10 manns – nóg sé til af tækjabúnaði: „Við gætum kannski tekið stærri verk og bara ráðið útlendinga en það kostar og þá þarf að redda húsnæði.“

Viðmælandi frá ferðaþjónustufyrirtæki segir þetta svolítið snúna stöðu. Það vanti fagmenntað fólk í eldhús og í framreiðslu en þegar hann var spurður hvort hann myndi fjölga fólki ef framboð af hæfu fólki væri fyrir hendi svaraði hann því neitandi, að launakostnaður byði ekki upp á það og það þyrfti að segja öðru fólki upp fyrst.