Skortur á iðnaðarmönnum

Allir viðmælendur voru spurðir hvernig gengi að fá hæft fólk til starfa með viðeigandi menntun. Ólíkt er eftir starfsgreinum hversu auðveldlega gengur að fá hæft fólk til starfa en gegnumgangandi stef er þó að faglært fólk er oft vandfundið. Þannig segir ferðaþjónustuaðili sem rekur hótel og veitingastað þetta geta verið mjög snúið og það sé eins og að vinna í lottói þegar faglærð manneskja sæki um vinnu. Atvinnustig sé hátt á Austurlandi og að auðvelt sé fyrir flesta að fá vinnu. „Fólk gerir meiri kröfur,“ segir hann. „Það vill t.d. ekki vinna vaktavinnu, vill ekki vinna á kvöldin og um helgar. Það hefur verið auðveldast að fá fólk í móttökuna og þar eru Íslendingarnir að vinna, þar og á skrifstofunni.“ Flest önnur störf hjá fyrirtækinu, s.s. þjónustustörf, eru mönnuð af útlendingum, stundum vel menntuðum með háskólagráður í greinum sem tengjast ekki starfinu.

Hjá viðmælendum sem tengjast sjávarútvegi og iðnaði var viðvarandi skortur á iðnaðarmönnum. Yfir því sama kvörtuðu aðrir viðmælendum líka þegar þeir voru spurðir almennt út í vinnuaflsþörf landshlutans. Starfsmannastjóri hjá stóru fiskvinnslufyrirtæki sagði:

„Það er svolítið vesen að finna góða iðnaðarmenn og það er áhyggjuefni til framtíðar. Tæknivæðingin mun aukast enn meira á næstu tíu árum og verkafólki mun fækka enn meira. Það verður meiri þörf fyrir tæknivæðingu og starfsmenn munu þurfa að kunna á flókin búnað og geta viðhaldið honum.“ Undir þetta tóku aðrir viðmælendur úr sömu grein sem og viðmælendur frá iðnaðarfyrirtækjum.

 

Aðspurðir um hvernig iðnmenntun vantaði á svæðið nefndu viðmælendur flestar helstu greinarnar, s.s. vélvirkjun, rafvirkjun og smíðar, en einn viðmælandi úr sjávarútvegsfyrirtæki lýsti draumaiðnaðarmanninum svona:

„Draumastarfsmaður í fiskiðjuveri er einhver sem kann allt – svona ofuriðnaðarmaður. Vélstjóramenntaðir menn eru t.d. mjög eftirsóttir. Menn sem kunna bæði á rafmagn og vélar.“

Eðli málsins samkvæmt er þörfin fyrir ákveðna menntun, s.s. iðnmenntun, mismikil á milli atvinnugreina. Viðmælandi hjá hópbifreiðafyrirtæki sagði t.d. þetta um menntaþarfir síns fyrirtækis:

 

„Það er áhyggjuefni hversu fáir atvinnubílstjórar eru að koma inn á markaðinn og ég veit ekki hvað við gerum þegar þessir gömlu hætta. Það er erfitt að fá fólk til að taka þessi réttindi, þau eru dýr og mögulega er ekki hægt að bjóða mönnum neitt nema árstíðabundna vinnu,“ segir viðmælandinn og bætir við að það hugnist fæstum. Þetta þurfi mögulega að leysa með því að fá fólk utan svæðis í tímabundna vinnu en það kalli á önnur vandamál, t.d. að það þurfi þá að útvega fólki húsnæði.

Þessi sami viðmælandi sagði einnig: „Ég hef minni áhyggjur af öðrum störfum sem hægt er að leysa með tækni. Viðkomandi þarf þá kannski ekki að vera á skrifstofunni. Þá á ég við störf eins og fjármálastjórn, markaðssetningu og hina og þessa stjóra.“