Önnur hlið á þessu kom fram hjá fulltrúa sjávarútvegsfyrirtækis sem tók undir að vel menntað fólk með mikla reynslu væri alltaf eftirsóknarvert en það skipti líka máli að samsetning vinnuaflsins myndi breytast, að hærra hlutfall starfsmanna væri með viðeigandi menntun: „Það gæti orðið mikil ógn við reksturinn ef okkur tekst ekki að manna þau störf sem við þurfum að manna. Tæknivæðingin mun valda því að við þurfum fólk sem skilur þessa tækni og á næstu tíu árum verður enn meiri tæknivæðing í vinnslunni. Það má líka segja að ef starfsfólki heldur áfram að fækka og framlegðin verður jafn góð og hún hefur verið síðustu ár þá höfum við efni á að borga mjög góð laun. Áskorunin er að fá fólk til að búa hérna. Það er t.d. þekkt að læknar geta verið á góðum launum hérna en samt er erfitt að fá þá í vinnu. Sumt fólk kemur og fer og það má alveg ímynda sér það að við verðum með mjög færa tæknimenn sem koma og vinna mikið í afmarkaðan tíma og fari svo. Þetta fer eftir aðstæðum auðvitað en við þurfum að velta því fyrir okkur hvernig við bregðumst við ef okkur tekst ekki að ráða fólk sem vill búa hér. Það er þekkt í vissum bissness, svona olíuborðpallasyndrom, að þú þarft að borga há laun til að fá fólk til koma og það eru alltaf einhverjir til í svoleiðis díl. Þetta er auðvitað að sumu leyti díllinn með sjómenn. Mikil fjarvera frá heimili en vinnan fjárhagslega arðbær.“

Hjá stóru iðnfyrirtæki á svæðinu er reyndar farin sú leið að aðstoða fólk við að verða sér úti um próf í iðngreinum og verkfræði: „Þetta prógramm sem VA setti á laggirnar sem snýst um að þú getir verið í námi með vinnu hentar ágætlega. Við erum alveg til í að fylla þessi fjögur stöðugildi af fólki sem verður síðar að iðnaðarmönnum. Við erum þannig svolítið að búa til iðnaðarmenn, reynum það allavega. Þetta er okkar source, að búa til starfsmenn sjálf. Það reynist okkur best,“ sagði viðmælandi frá fyrirtækinu og lýsti því hvernig þeir yrðu fyrir valinu, ef svo mætti orða það:

„Það eru krakkarnir sem eru héðan og eru líklegastir til að vera hérna áfram. Maður þarf einhvern veginn að vera bara á tánum gagnvart þessu. Við erum líka að reyna gera þetta með verkefnapotti. Ef krakkar vilja gera lokaverkefni að þá geti þeir leitað í þennan pott. Mér finnst það ekki nærri því eins effektívt og að grípa þá bara. Sýna þeim mikla athygli. Spyrja þá: Viltu verða verkfræðingur eða hvert stefnir hugurinn? Gefa þeim undir fótinn. Við erum bæði með verkfræðinga frá HÍ og HR. Flestir fara þeir í framhaldsnám til Danmerkur. Þannig voru þrír að klára masterinn. Þetta er svona leið til að vinna þetta. Þetta er svolítið sveitó en einhvern veginn verðum við að viðhalda þessu. Ég verð að segja að ég ber ákveðnar væntingar í brjósti til þessarar háskólabrúar eða háskólaseturs [hér er vísað í háskólaútibú á Austurlandi þar sem kennd verður hagnýt iðnaðartæknifræði]. Að þá sé hægt að taka þessa krakka hérna fyrir austan þannig að þeir fari ekki.“