Austurbrú opnaði í gær fyrir aðgang að þremur nýjum myndböndum þar sem hringrásarhagkerfið er kynnt á einfaldan og aðgengilegan máta. Það er von okkar að myndböndin henti öllum aldurshópum og auki vitund almennings á Austurlandi um mikilvægi þess að fullnýta auðlindir og minnka sóun.
Myndböndin koma í framhaldi af myndbandi um hringrásarhagkerfið sem við frumsýndum fyrir ári. Myndböndin voru fjármögnuð með styrk úr Loftslagssjóði, sjóður á vegum umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, og unnin í samstarfi við kvikmyndagerðarmennina Elínu Elísabetu Einarsdóttur, Rán Flygenring og Sebastian Ziegler. Samstarfið gekk vel og snemma á síðasta ári ákvað Austurbrú að sækja aftur um styrk í Loftslagssjóð og dýpka umfjöllunina. Unnin voru þrjú myndbönd til viðbótar sem fjalla um mat og matarsóun, umhverfisvænar samgöngur og endurnýtingu og voru þau sett á vefinn í gær að viðstöddum Guðlaugi Þór Þórðarsyni, orku- og loftslagsráðherra, sem horfði á þau í félagsskap starfsmanna Austurbrúar. „Það var mikill heiður að vera í hópi þeirra fyrstu sem sjá myndböndin,“ sagði Guðlaugur Þór í gær. „Mér finnst þau draga fram mikilvæg mál sem varða okkur öll á einfaldan, skemmtilegan og auðskiljanlegan hátt.“
Myndböndin eru mjög í anda Svæðisskipulags Austurlands sem samþykkt var í haust. Þar er mikil áhersla lögð á eflingu hringrásarhagkerfisins og nýsköpun á grunni þess. Signý Ormarsdóttir og Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir hafa stýrt þessari vinnu fyrir hönd Austurbrúar. Þær segjast afar ánægðar með myndböndin og hafa miklar væntingar um að þau fái góðar móttökur. „Við erum auðvitað fyrst og fremst að horfa til skólanna,“ segir Halldóra. „Við trúum því að ef börnin okkar sjá myndböndin og beri boðskapinn heim muni þau hafa áhrif á hegðun okkar fullorðnu. Kannski byrja þau að pönkast aðeins í mömmu og pabba og biðja þau að nota ekki alltaf bílinn þegar það þarf að skjótast í búðina!“
Signý segist vona að myndböndin verði sýnd áhorfendum utan landshlutans því þær eigi svo sannarlega erindi við alla landsmenn. „Það sem mér finnst svo skemmtilegt við þessi myndbönd er að þarna er verið að fjalla um mál sem varða okkur öll en Austurland er í forgrunni. Fyrir utan boðskapinn í þeim, sem auðvitað skiptir mestu máli, er líka verið að sýna landshlutann okkar á nýjan og skemmtilegan máta,“ segir Signý.
Myndböndin eru aðgengileg á YouTube en hafi fólk, t.d. kennarar, áhuga á að fá þau í betri upplausn má hafa samband við Austurbrú. Þau er líka hægt að horfa á með enskum texta.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn