Úthéraðsverkefnið
Verkefnið Úthérað: Ein sveit – okkar sveit er byggðaverkefni sem hófst árið 2022. Markmið verkefnisins var að fjalla um og ræða tækifæri og búsetugæði á svæðinu en það mynda fjórar sveitir: Eiðaþinghá, Hjaltastaðaþinghá, Hróarstunga og Jökulsárhlíð. Skipuð var verkefnisstjórn þar sem sat einn fulltrúi hverrar sveitar. Verkefnahópurinn stóð fyrir spurningakönnun og íbúaþingi sem veittu hvort tveggja mikilvæga innsýn og niðurstöður sem nú hafa verið kynntar fyrir heimastjórn. Verkefnahópurinn hefur lagt til framhald á verkefninu og væri það ákveðin nýsköpun hvað varðar íbúalýðræði og vinnulag við búsetuþróun í sveitum landsins.
Íbúaþing
Verkefnið hófst á íbúaþingi sem haldið var laugardaginn 27. ágúst 2022 í Brúarási. Á þinginu sameinuðust þátttakendur um slagorð fyrir samfélagsþróunarverkefnið sem framundan er: Úthérað: Ein sveit – okkar sveit! Íbúar sér dagskrá út frá þeim málefnum sem þeir vildu ræða og töldu mikilvæg fyrir framtíðarsýn svæðisins. Málefnin voru fjölbreytt, almenningssamgöngur, orkumál, atvinnutækifæri og skipulagsmál. Unnið var í stuttum umræðulotum og niðurstöðurnar teknar saman í lok þingsins.
Nánar um íbúaþingið