Austurbrú heldur upp á sitt fyrsta stórafmæli nú í vor eftir viðburðaríkan áratug. Í tilefni afmælisins var boðið til hátíðardagskrár í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði síðastliðinn föstudag.
Nokkrir fyrirlesarar fluttu ávörp á afmælishátíðinni um fjölbreytt efni. Stefán Bogi Sveinsson, skáld og sveitarstjórnarfulltrúi talaði um sjálfsmynd Austfirðinga. Páll Líndal, doktor í umhverfissálfræði, fjallaði um áhrif umhverfis á heilsu og vellíðan. Ferðamálafrömuðurinn Auður Vala Gunnarsdóttir, sem er m.a. eigandi Blábjarga á Borgarfirði eystri, fjallaði um ferðaþjónustu á Austurlandi og hvert við eigum að stefna. Ragga nagli, heilsusálfræðingur og einkaþjálfari, fjallað um fjölbreyttar undirstöður góðrar heilsu og áherslur ólíkra samfélaga á því sviði.
Von var á Áslaugu Örna Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra en hún sat föst á Grænlandi vegna veðurs. Ávarp hennar á afmælishátíðinni var því rafrænt.
Áslaug flutti miklar gleðifréttir í ávarpinu því hún sagði m.a. frá því að frá komandi hausti verður í fyrsta sinn hægt að stunda B.S. nám í tölvunarfræði frá Austurlandi. Að auki er í undirbúningi að bjóða upp á frekara nám í tæknifræði. Um er að ræða samstarfsverkefni Austurbrúar, Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri.
Við þökkum þeim mörgu gestum sem sóttu vel heppnaða afmælishátíð okkar fyrir komuna. Dagskránni lauk með óvissuferð í blíðskaparveðri þar sem Steinasafn Petru á Stöðvarfirði var heimsótt.
Austurbrú varð til fyrir 10 árum með samruna Þekkingarnets Austurlands, Þróunarfélags Austurlands, Menningarráðs Austurlands, Markaðsstofu Austurlands og skrifstofu Sambands sveitarfélaga á Austurlandi. Að henni standa yfir þrjátíu stofnaðilar, þar á meðal öll sveitarfélögin á Austurlandi, allir háskólar landsins, helstu fagstofnanir, stéttarfélög og hagsmunasamtök atvinnulífsins, framhaldsskólar og þekkingarsetur á Austurlandi.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn