Tólf nýsköpunarteymi luku nýverið viðskiptahraðlinum Startup Landið 2025, sem er samstarfsverkefni landshlutasamtakanna utan höfuðborgarsvæðisins. Markmið hraðalsins er að styðja frumkvöðla víðs vegar af landinu í að þróa hugmyndir sínar, efla viðskiptahæfni og byggja upp tengslanet. Hjónin og Mjófirðingarnir Margrét Sigfúsdóttir og Guðjón Halldórsson tóku þátt en þau eru að þróa heilsársferðaþjónustu í Mjóafirði.
Startup Landið er sjö vikna viðskiptahraðall þar sem þátttakendur fá fræðslu, sækja vinnustofur og taka þátt í mentorafundum með reynslumiklum aðilum úr atvinnulífinu. Hraðallinn hefur þannig reynst mikilvægur vettvangur fyrir verkefni til að þroskast og vaxa – með vindinn í bakið.
Eitt af verkefnunum sem tók þátt var Sólbrekka í Mjóafirði, ferðaþjónusta sem hjónin Margrét Sigfúsdóttir og Guðjón Halldórsson standa að. Þau vilja þróa Mjóafjörð sem vetraráfangastað þar sem gestir upplifa frið, myrkur og kyrrð og kynnast lífinu í fámennu samfélagi þar sem samstaðan ræður ríkjum.
„Við vildum nýta viðskiptahraðalinn til að spegla okkur í öðrum og fá nýja sýn á verkefnið,“ segir Margrét. „Mentorafundirnir voru ótrúlega lærdómsríkir. Þetta var akkúrat það sem okkur vantaði til að sjá heildarmyndina: Á hvað eigum við að leggja áherslu, hvert er aðdráttaraflið hjá okkur og hvað gerir okkur spennandi?“
Svarið, segir hún, hafi legið í einangruninni. „Það orð er oft notað í neikvæðu samhengi en fyrir okkur er það einmitt kjarni upplifunarinnar. Að vera hér og finna kyrrðina, myrkrið og náttúruna. Já, og samstöðuna. Sjá hvernig fólk reddar hlutunum þegar ekki er hægt að skjótast í búð.“
Margrét segir að þátttakan í hraðlinum hafi staðfest að þau séu á réttri leið. „Við fengum staðfestingu á því hver kjarninn í ferðaþjónustunni okkar er en nú tekur við úrvinnslutímabil þar sem við vinnum úr öllum ábendingunum sem við fengum í ferlinu.“



Lokaviðburður Startup Landsins fór fram með pompi og prakt fimmtudaginn 30. október í Hofi á Akureyri. Þar kynntu tólf nýsköpunarteymi verkefni sín fyrir boðsgestum, og ríkti mikil orka og samkennd meðal þátttakenda.
Þau verkefni sem kynnt voru að þessu sinni voru:
Mundialis – Malað frostþurrkað grænmeti beint í hollustudrykkinn (Vesturland)
Festivus – Hornfirskt gæðasúkkulaði og ævintýralegur áfangastaður (Suðurland)
Snældur – Íslensk hönnunar- og gjafavara úr íslenskum við fyrir börn (Norðurland eystra)
Ahsig ehf. – Dagsferðir fyrir ferðamenn í Skagafirði (Norðurland vestra)
Fast and Affordable – Ný byggingartækni sem lækkar kostnað og styttir byggingartíma steinsteyptra húsa (Suðurnes)
Cannarctica – Orkusparandi heildarlausn fyrir gróðurhús í köldu loftslagi (Vestfirðir)
Lífrænt vottaðar íslenskar lækningajurtir – Framleiðsla og sala lífrænna lækningajurta (Vesturland)
Hunda Veisla – Lífrænt heilfóður fyrir hraustari hunda, unnið úr úrgangi sláturhúsa (Suðurland)
Böggvisbrauð – Lífrænt súrdeigsbrauð; næringarríkt og umhverfisvænt (Norðurland eystra)
Brekka ferðaþjónusta – Ómönnuð verslun á Þingeyri með veitingasölu (Vestfirðir)
Sólbrekka Mjóafirði – Ævintýraleg vetrarferð með áherslu á friðsæld og náttúrufegurð (Austurland)
Litli Gúri ehf. – Upplifðu náttúruna og undur hafsins á RIB Safari á Skagaströnd (Norðurland vestra)
Startup Landið er samstarfsverkefni landshlutasamtakanna SSNV, SSNE, Vestfjarðastofu, Austurbrúar, SASS, SSS og SSV, sem vinna saman að því að efla nýsköpun og byggðafestu á landsbyggðinni.
Að verkefninu loknu óska landshlutasamtökin öllum teymunum innilega til hamingju og áframhaldandi góðs gengis með verkefnin sín.
Páll Baldursson


Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn