Tónlistarmiðstöð heimsótti Austurland í síðustu viku og hélt kynningarfund í Sláturhúsinu Menningarmiðstöð á Egilsstöðum. Tilgangurinn var að kynna starfsemi miðstöðvarinnar og þá þjónustu og stuðning sem tónlistarfólk getur sótt til hennar.
Tónlistarmiðstöð, í samstarfi við Austurbrú, stóð fyrir fræðsluviðburði á Egilsstöðum á mánudaginn í síðustu viku til að kynna starfsemi sína og þá þjónustu og stuðning sem tónlistarfólk og fólk sem starfar í íslenskum tónlistargeira getur sótt til hennar. Að auki var kynning á endurgreiðslum vegna hljóðritunar á tónlist á Íslandi og nýjum og efldum Tónlistarsjóði sem Tónlistarmiðstöð annast fyrir hönd menningar- og viðskiptaráðuneytisins.
Tónlistarmiðstöð hefur m.a. það hlutverk að efla og kynna íslenska tónlist á alþjóðavettvangi, tengja íslenskt tónlistarfólk við erlenda markaði og veita ráðgjöf og stuðning til tónlistarfólks og annarra sem starfa í íslenskum tónlistargeira. Miðstöðin annast umsýslu Tónlistarsjóðs en sjóðurinn veitir styrki til íslensks tónlistarfólks og verkefna með það að markmiði að styðja við þróun tónlistargeirans, efla útgáfu, tónlistarflutning og kynningu á íslenskri tónlist bæði heima og erlendis. Þá var sagt frá endurgreiðslum vegna hljóðritunar á tónlist en tónlistarfólk á Íslandi getur sótt um endurgreiðslu á kostnaði vegna hljóðritunar á tónlist á Íslandi frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn