Hengifoss

„Margt vitlausara en að læra viðburðastjórnun í miðjum heimsfaraldri“

Sylvía Helgadóttir er einn af sumarstarfsmönnum Austurbrúar og nýútskrifaður viðburðastjórnandi.

„Haustið 2019 datt mér í hug að taka námsbrautina Verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun,“ segir Sylvía. „Ég kláraði námið vorið 2020 með vottun í verkefnastjórnun og út frá þeirri námsleið ákvað ég að nú skildi ég stefna á háskólanám. Til þess þurfti ég fyrst að ljúka grunni til að komast inn í háskóla. Ég sótti því um nám við háskólagátt hjá Bifröst en hafði áhyggjur af því að það yrði of lítið að gera hjá mér – ég þarf nefnilega að hafa nóg að gera – og sótti því líka um diplómunám í viðburðastjórnun í Háskólanum á Hólum.

Háskólagátt Bifrastar býr nemendur undir nám á háskólastigi og er aðfaranám skólans inn í grunnnámslínur. Diplómunám í viðburðastjórnun gerir nemendur hinsvegar færari í að skipuleggja, fjármagna og stýra viðburðum frá upphafi til enda. „Það er mikil samþætting hagnýtra og fræðilegra þátta í viðburðastjórnun og auðvitað margt vitlausara en að læra viðburðastjórnun í miðjum heimsfaraldri,“ segir Sylvía kímin og bætir við: „Ég lærði mikið á þessum stutta tíma og ég held að nemendur sem voru í námi 2020-2021 hafi lært mikið á þessu ástandi. Þetta kenndi okkur að vera fljótir að hugsa og takast á við snöggar breytingar.“

„Ég sá stöðu verkefnastjóra í verkefnið Fögur framtíð í Fljótsdal auglýsta á sínum tíma (árið 2019) og það var eitthvað við þessa auglýsingu sem ýtti af stað þessari atburðarás. Ég sótti sem sagt um þetta nám í verkefnastjórnun og leiðtogaþjálfun en endaði svo sem verknámsnemi í viðburðastjórnun undir leiðsögn Ásdísar Helgu. Þegar kom að því að sækja um verknámsstað datt mér ekki annað í hug en að setja mig í samband við Ásdísi Helgu [Bjarnadóttur, verkefnastjóra Fagrar framtíðar í Fljótsdal] enda hafði ég fylgst með hennar störfum af miklum áhuga.“