Heildstæð úrgangsstefna fyrir Austurland
Sveitarfélögin á Austurlandi hafa nú öll samþykkt nýja svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs sem gildir til ársins 2035. Um er að ræða fyrstu heildstæðu áætlunina á þessu sviði sem unnin er í sameiningu af öllum sveitarfélögunum fjórum í landshlutanum. Austurbrú og Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) aðstoðuðu við gagnaöflun og samhæfingu í ferlinu. Áætlunin byggir á lögum um meðhöndlun úrgangs og markmiðum um úrgangsforvarnir og hringrásarhagkerfi. Þar er lögð áhersla á að draga úr myndun úrgangs, auka endurnýtingu og endurvinnslu og tryggja að sem minnst afgangsefni fari til urðunar.
Fimm meginmarkmið
Í áætluninni eru skilgreind fimm meginmarkmið, m.a. um lágmörkun flutninga með aukinni úrvinnslu á svæðinu sjálfu, forgang lífræns úrgangs og áframhaldandi samstarf sveitarfélaga um úrgangsmál og sameiginlega hagsmunagæslu. Stefnunni verður fylgt eftir með 20 aðgerðum, sem sveitarfélögin hafa sammælst um að ráðast í.
Þrjú af verkefnunum eru þegar í forgangi árið 2025:
- Stofnun Úrgangsráðs Austurlands, sameiginlegs vinnuhóps sveitarfélaganna
- Ráðning hringrásarfulltrúa sem leiðir innleiðingu og þjónustu við sveitarfélögin
- Endurskoðun samþykkta og gjaldskráa þannig að þær endurspegli áherslur hringrásarhagkerfisins
Í framhaldinu verður m.a. unnið að greiningu á fyrirkomulagi sorphirðu, möguleikum heimajarðgerðar og meðhöndlunar seyru, og metin verður fýsileiki sorporkuvers á Austurlandi fyrir þann úrgang sem ekki fer til endurvinnslu.
Austurbrú mun halda utan um vöktun og eftirlit með framvindu áætlunarinnar og tryggja að aðgerðum verði hrint í framkvæmd á réttum tíma.
Verkefnisstjórn

Sara Elísabet Svansdóttir