Sex verkefni á Austurlandi fengu styrk

Um 540 milljónum króna var úthlutað úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fyrir árið 2024. Einn af hæstu styrkjunum hlaut Jökuldalur slf. til áframhaldandi uppbyggingar í landi Grundar við Stuðlagil. Alls hlutu sex verkefni á Austurlandi styrk.

Verkefnin sem hlutu styrk á Austurlandi eru:

Jökuldalur slf.: 90 milljónir fyrir áframhaldandi uppbyggingu við Stuðlagil. Vinsældir Stuðlagils sem áfangastaðar hafa haldið áfram að vaxa ár frá ári. Með verkefninu er uppbyggingu haldið áfram til að mæta þeim mikla fjölda sem þangað kemur með öryggi ferðamanna og verndun náttúru í forgrunni. Verkefnið er á áfangastaðaáætlun Austurlands og rímar vel við áherslur sjóðsins varðandi öryggi ferðamanna, innviðauppbyggingu og náttúruvernd.

Minjasafnið Bustarfelli í Vopnafirði: 900.000 til að bæta aðgengi fatlaðra að safninu. Verkefnið snýst um að bæta aðgengi fatlaðra að áhugaverðum stað. Stækka þarf núverandi bílastæði og gera annað skammt frá. Eins að merkja allt svæðið mun betur svo ferðamenn sjái hvar megi leggja bílum og sjái þá þjónustu sem svæðið býður upp á. Þetta er gert til þess að bæta öryggi gesta sem er mjög brýnt.

Múlaþing: 28,55 milljónir til uppbyggingar gönguleiðar á hafnarbakkanum við Eggin í Gleðivík á Djúpavogi. Verkefnið er í senn mikilvæg öryggisráðstöfun og bætt umgjörð fyrir þennan fjölsóttasta áfangastað ferðamanna á Djúpavogi. Markmiðið er að aðgreina umferð gangandi ferðamanna um svæðið og hafnsækinnar starfsemi og búa betur um áningarstaðinn með bekkjum og lýsingu. Verkefnið er á áfangastaðaáætlun.

Fjarðabyggð: 2,46 milljónir til að hanna göngustíg við Bleiksárfoss á Eskifirði. Verkefnið snýst um hönnun svæðisins við Bleiksárfoss á Eskifirði. Markmiðið er að svæðið geti tekið á móti þeim aukna fjölda ferðamanna sem þangað koma, tryggja sjálfbærni náttúru svæðisins og koma í veg fyrir hentistígamyndun. Verkefnið er á áfangastaðaáætlun og samræmist helstu markmiðum sjóðsins um náttúruvernd og uppbyggingu innviða. Verkefnið er á áfangastaðaáætlun.

Fjarðabyggð: 25 milljónir til að útbúa göngustíga o.fl. við Streitishvarf við Breiðdalsvík. Streitishvarf á Streitishorni milli Breiðdalsvíkur og Berufjarðar er vinsæll viðkomustaður ferðamanna. Verkefnið snýst um gerð viðtöku fyrir gesti og göngustíga sem bæði vernda viðkvæmar jarðmyndanir og varpsvæði auk þess að koma í veg fyrir slys en hætta er á falli niður í grýtta fjöru. Verkefnið fellur því vel að áherslum sjóðsins um náttúruvernd, bætt öryggi og aðgengi. Verkefnið er á áfangastaðaáætlun.

Fljótsdalshreppur: 15,53 milljónir fyrir áframhaldandi uppbyggingu við Hengifoss. Markmið verkefnsins er að bæta og styrkja göngustíga norðan og sunnan megin gilsins upp að Hengifossi, m.a. með því að bæta undirlag í stíga og gera ræsi til að lengja líftíma stíga. Einnig á að bæta merkingar. Staðurinn er á áfangastaðaáætlun síns svæðis og fellur vel að markmiðum sjóðsins um náttúruvernd og öryggi. Verkefnið er á áfangastaðaáætlun.

Í gegnum árin hafa fjölmörg verkefni á Austurlandi hlotið styrki úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða og er hægt að skoða þau nánar í kortasjá Ferðamálastofu.

Áfangastaðaáætlun Austurlands er þróunar- og aðgerðaáætlun landshlutans og er unnin í samstarfi við sveitarfélög, fyrirtæki, íbúa og aðra hgasmnaaðila. Markmið áætlunarinnar er að gera Austurland að ákjósanlegum stað til að búa á og sækja heim.

Nánari upplýsingar um úthlutanir ársins má finna á vef Ferðamálastofu.