Í gær var úthlutað úr Samfélagssjóði Fljótsdals. Alls bárust 24 umsóknir að þessu sinni og úthlutaði sjóðurinn alls 12.050.000 kr. og fengu þrjú verkefni meira en eina milljón króna í styrk.
Samfélagssjóður Fljótsdals er ætlaður til stuðnings nýsköpunar, menningar og atvinnuskapandi verkefna í Fljótsdal. Hann var stofnaður árið 2020 og var þetta þriðja úthlutunin úr sjóðnum. Með Samfélagsjóðnum opnast tækifæri, ekki bara fyrir Fljótsdælinga, heldur alla einstaklinga, félög og lögaðila sem vilja byggja upp og styðja við framfaraverkefni í Fljótsdal í anda áherslna frá Samfélagsþingum Fagrar framtíðar í Fljótsdal. Auglýst var eftir umsóknum í upphafi árs en alls bárust 24 umsóknir að þessu sinni þar sem heildarkostnaður verkefnanna var 74.123.360 kr. og sótt um 26.383.365 kr.
Sjóðurinn úthlutar nú alls 12.050.000 kr.
Vel var mætt á úthlutunarathöfnina í Végarði og í ávarpi sínu sagði Ásdís Helga Bjarnadóttir, verkefnastjóri Fagrar framtíðar í Fljótsdal, meðal annars: „Við mat á verkefnum er horft til fjölmargra þátta en einn af þeim byggir á niðurstöðum Samfélagsþings, sem haldin eru árlega. Við höfum notið þess hversu vel þeir sem lifa og starfa í Fljótsdal hafa sótt þingin og út úr þeim hafa komið fullt af hugmyndum sem byggja undir þá framtíðarsýn sem sett var fram í upphafi verkefnisins, Fagrar framtíðar í Fljótsdal, og Samfélagsnefnd hefur fylgt dyggilega eftir,“ sagði hún og bætti við:
„Í flestum tilfellum hafa aðilar, einstaklingar, félög og stofnanir tekið að sér verkefni, útfært betur og framkvæmt þau, með eða án styrkja, og með eða án aðstoðar þeirrar sem hér stendur. Við erum einnig mjög heppin með hvað sveitarstjórn og sveitarstjóri hafa tekið góðan og virkan þátt í að veita verkefnum brautargengi með margvíslegum hætti og fylgt eftir þeim verkefnum sem fallið hafa inn á borð sveitarfélagsins. Aðkoma sveitarfélagsins að stofnun Samfélagssjóðsins er einnig einsdæmi hvað varðar sveitarfélög, bæði hvað varðar að fylgja eftir þeirri hugmynd íbúa að stofna sjóðinn með áherslu á nýsköpun, menningu og atvinnuskapandi verkefni í Fljótsdal, sem og út frá þeim fjárhæðum sem hægt er að veita til verkefna árlega úr Samfélagssjóðnum og öðrum sjóðum sveitarfélagsins.“
Við óskum styrkhöfum ársins 2022 hjartanlega til hamingju!
Mynd efst: Styrkhafar ársins 2022. Úr myndasafni Austurgluggans.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn