Í gær, 11. desember, fór fram úthlutunarathöfn Uppbyggingarsjóðs Austurlands fyrir verkefnaárið 2026. Athöfnin var haldin í Sköpunarmiðstöðinni á Stöðvarfirði og var vel sótt. Til úthlutunar voru samtals um 59,3 milljónir króna, sem skiptast á milli 57 verkefna víðs vegar um Austurland.
Alls bárust 97 umsóknir í sjóðinn að þessu sinni, samtals að fjárhæð 173,1 milljón króna. Af þeim voru 33 umsóknir á sviði atvinnu og nýsköpunar, 60 umsóknir á sviði menningar og 4 umsóknir um stofn- og rekstrarstyrki. Heildarkostnaður þeirra verkefna sem sótt var um styrk til nam um 555 milljónum króna, sem endurspeglar þann mikla metnað og kraft sem einkennir samfélagið á Austurlandi.
Af úthlutuðum styrkjum fóru 26,8 milljónir króna til 20 atvinnu- og nýsköpunarverkefna, 27 milljónir króna til 34 menningarverkefna og 5,5 milljónir króna til þriggja stofn- og rekstrarstyrkja. Um 59% umsókna hlutu styrk, sem er hærra hlutfall en árið áður og endurspeglar gæði og fjölbreytni verkefnanna.
Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, Logi Einarsson, ávarpaði athöfnina og lagði áherslu á mikilvægi menningar og nýsköpunar fyrir byggðaþróun og lífsgæði um land allt. Hann sagði menningu vera grundvallarþátt í búsetuvali fólks og að hún ætti ekki að vera lúxus fyrir fáa heldur sjálfsagður hluti af daglegu lífi, óháð búsetu. Þá benti hann á að Uppbyggingarsjóðurinn væri lykiltæki til að tryggja að innviðir og hugmyndir næðu að blómstra á landsbyggðinni.
Nánar um styrkhafa
Jóna Hlíf Halldórsdóttir, formaður úthlutunarnefndar, sagði í ávarpi sínu að fagráðin hefðu vegið og metið verkefni sem þegar væru orðinn fastur liður í menningar- og samfélagslífi á svæðinu, en jafnframt stutt við umsóknir sem stuðla að nýliðun og aukinni grósku. Sérstök áhersla hefði verið lögð á að verkefnin dreifðust um byggðir landshlutans, auk þess sem horft var sérstaklega til stuðnings við nýsköpun í atvinnustarfsemi ungs fólks og verkefni fyrir börn og ungmenni.
Uppbyggingarsjóður Austurlands hefur um árabil verið einn mikilvægasti hvati nýsköpunar, atvinnuþróunar og menningarlífs í fjórðungnum. Austurbrú óskar styrkhöfum innilega til hamingju með úthlutunina og þakkar öllum umsækjendum fyrir metnaðarfullar og vel unnar umsóknir. Það er bæði forréttindi og ánægja að fylgjast með þeirri grósku sem birtist í hugmyndum og verkefnum fólks á Austurlandi.
„Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu mörg verkefni byggja á nýjum hugmyndum og virku samtali við börn og ungmenni. Slík verkefni skipta sköpum fyrir framtíð menningar, nýsköpunar og samfélagsþróunar á Austurlandi,“ sagði Signý Ormarsdóttir, verkefnastjóri menningarmála hjá Austurbrú. Hún fékk við þetta tækifæri blómvönd og var henni sérstaklega þakkað með lófataki, en hún lætur af störfum hjá Austurbrú á næsta ári.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn