Laugardaginn 5. júní var útskrift úr námsleiðinni Menntastoðir sem byggð er á námskrá frá Fræðslumiðstöð atvinnulífins. Alls tóku nítján nemendur þátt í náminu í vetur. Námsleiðin er sérstaklega sett saman fyrir þá sem eru að hefja nám eftir hlé og skipulagið er þannig að hægt sé að stunda námið samhliða vinnu.
Mikið er tekið upp af kennsluefni og sent út beint gegnum Zoom um leið og boðið er upp á stuðningstíma og staðlotur. Námsleiðin samanstendur af annars þreps áföngum kjarnagreina á framhaldsskólastigi og telur 50-60 einingar. Þeir sem ljúka allri námsleiðinni fá aðgang að frumgreinadeildum háskólanna (Háskólagrunnur HR, frumgreinadeild Bifröst og Háskólabrú Keilis) og stefnir hluti þeirra sem nú útskrifuðust á að halda áfram námi í Háskólagrunni HR sem verður í staðnámi á Austurlandi í fyrsta skipti í haust.
Meirihluti nemenda tók staka áfanga úr námsleiðinni en stór hópur hefur farið gegnum raunfærnimat á Austurlandi undanfarin misseri. Sá hópur þarf gjarnan að taka nokkra áfanga til viðbótar þeim sem þeir fá metna og hentar þá vel að gera það gegnum Menntastoðir.
Dúx Menntastoða var Tanja Tómasdóttir sem einmitt setti sér það markmið þegar hún hóf nám í haust. Tanja stefnir á háskólanám í fiskeldisfræðum en hún starfar hjá Löxum fiskeldi í Reyðarfirði.
Við óskum nemendum til hamingju með námsárangurinn og útskriftina og óskum þeim áframhaldandi velgengni!
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn