Úttektin, sem unnin var af Gagna ehf., staðfestir að farsímasamband er ófullnægjandi á lykilleiðum, þar á meðal stofnvegum og ferðaleiðum, og að neyðarfjarskiptakerfið Tetra nær ekki til allra mikilvægra svæða. Þetta setur öryggi íbúa í hættu og getur tafið viðbrögð við neyðartilvikum. Þá eru veikleikar í útvarpsdreifingu RÚV á sumum svæðum sem takmarkar aðgengi að neyðartilkynningum þegar net- og farsímasamband bregst.

„Fjarskiptaöryggi er ekki lúxusmál heldur lífsnauðsynlegt öryggismál,“ segir Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður SSA. „Við höfum séð alvarleg dæmi síðustu misseri þar sem skortur á farsímasambandi hefur tafið viðbrögð við slysum og náttúruvá. Það er óásættanlegt að stór landsvæði búi við fjarskiptaleysi á 21. öld.“

Efnahagsleg áhrif vanfjárfestingar í fjarskiptum

Fjarskiptainnviðir eru ekki aðeins öryggismál heldur líka efnahagslegt hagsmunamál. Austurland leggur til tæplega fjórðung af verðmæti vöruútflutnings Íslands þrátt fyrir að þar búi innan við þrjú prósent landsmanna. Stór alþjóðleg fyrirtæki í áliðnaði, sjávarútvegi og fiskeldi starfa á svæðinu, auk þess sem ferðaþjónusta hefur aukist til muna. Skortur á öruggum og öflugum fjarskiptum setur landshlutann í ósanngjarna samkeppnisstöðu gagnvart öðrum landshlutum þegar kemur að því að laða að ný fyrirtæki, fjárfestingu og starfsfólk.

„Atvinnulíf á Austurlandi er í mikilli sókn en það getur ekki vaxið á innviðum sem eru ekki í takt við tímann,“ segir Berglind Harpa. „Það er fráleitt að landshluti sem skilar jafn miklum útflutningstekjum í þjóðarbúið þurfi að berjast fyrir grundvallarinnviðum eins og stöðugu net- og farsímasambandi.“

Brýn úrbótaáætlun

SSA hefur ályktað um fjarskiptamál á síðustu árum t.d. á haustþingi sambandsins árið 2023. Úttektin minnir enn og aftur á að Austurland þarf tafarlausar aðgerðir frá stjórnvöldum og fjarskiptafyrirtækjum til að tryggja öryggi og samkeppnishæfni svæðisins. Úttektin leggur til að ljúka við ljósleiðaravæðingu í öllum byggðum, bæta farsímasamband á lykilleiðum með uppsetningu nýrra 4G/5G senda og styrkja neyðarfjarskiptakerfið Tetra svo það nái til allra mikilvægra svæða. Þá þarf að bæta útvarpsdreifingu RÚV á þeim svæðum þar sem hún er ófullnægjandi, sérstaklega í dreifbýli og á ferðamannaleiðum.

„Ríkisstjórnin segist vilja vinna á innviðaskuldinni – við krefjumst skýrra svara um hvernig og hvenær fjarskiptavandinn á Austurlandi verður leystur,“ segir Berglind Harpa. „Íbúar og fyrirtæki á Austurlandi eiga rétt á sambærilegum innviðum og aðrir landshlutar. Þetta er spurning um öryggi, réttlæti og efnahagslega framtíð svæðisins.“

SSA mun beita sér af fullum þunga fyrir því að þessar tillögur verði að veruleika sem fyrst.

Fleiri fréttir

Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!

Skoða fréttasafn