Dagar myrkurs fóru vel fram þetta árið og þátttaka almennt góð. Hrekkjavakan er orðin órjúfanlegur þáttur af Dögum myrkurs og æ fleiri taka þátt í „grikk eða gott“ þar sem börn á öllum aldri sníkja nammi af nágrönnum. Hina árlegu ljósmyndakeppni vann Jón Einar Ágústsson sem sendi inn fallega mynd frá Djúpavogi.
Fjölmargir viðburðir fóru fram og er til eftirbreytni hvernig sumir byggðakjarnar setja saman heildardagskrá og ná þannig að hámarka samveruna, gleðina og sköpunarkraftinn í fjölbreyttum viðburðum fyrir alla aldurshópa.
Ljósmyndakeppnin var haldin að venju og voru átta ljósmyndarar sem sendu inn 54 myndir. Sigurvegarinn í ár var Jón Einar Ágústsson frá Djúpavogi sem sendi inn fallega mynd af gamla læknabústaðnum á Djúpavogi, Dölum, þar sem ljós og skuggar leika sér í fullkominni litadýrð.
Nú fer fram endurskoðun á aðgerðaáætlun fyrir Daga myrkurs en sú áætlun sem unnið hefur verið eftir fram til þessa rennur út í lok þessa árs. Til að fá fram skoðanir og hugmyndir íbúa Austurlands leggjum við fram könnun sem við vonumst til að sem flestir sjái sér fært að svara.
Meðfylgjandi er vinningsmynd ársins og vonumst við til þess að við öll njótum myrkursins áfram, lýsum það upp með ljósum og samveru.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn