Íbúaþing Úthéraðs var haldið laugardaginn 27. ágúst í Brúarási. Á þinginu sameinuðust þátttakendur um slagorð fyrir samfélagsþróunarverkefnið sem framundan er. Það verður hér eftir Úthérað: Ein sveit – okkar sveit!
Þingið sóttu um þrjátíu íbúar úr þeim fjórum sveitum sem mynda Úthéraðssvæðið: Eiðaþinghá, Hjaltastaðaþinghá, Hróarstunga og Jökulsárhlíð. Á þinginu settu íbúar sér dagskrá út frá þeim málefnum sem þeir vildu ræða og töldu mikilvæg fyrir framtíðarsýn svæðisins. Málefnin voru fjölbreytt, almenningssamgöngur, orkumál, atvinnutækifæri og skipulagsmál. Unnið var í stuttum umræðulotum og niðurstöðurnar teknar saman í lok þingsins. Samantekt á niðurstöðum er í vinnslu og einnig er von á niðurstöðum úr íbúakönnun sem gerð var meðal íbúa og landeigenda á svæðinu.
Niðurstöður umræðunnar eru í helstu dráttum þær að fjölmörg tækifæri eru á svæðinu sem tengjast áfangastöðum eða perlum sem hægt væri að efla í tengslum við ferðaþjónustu. Þar var Hjaltalundur gjarnan nefndur sem miðstöð en einnig önnur félagsheimili á svæðinu sem jafnvel gætu nýst sem fjarvinnustöðvar fyrir óstaðbundin störf. Í þeim eru einnig vottuð eldhús sem í eru fólgin tækifæri til nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi. Samgöngur voru ræddar í víðu samhengi t.d. í tengslum við fyrirkomulag skólaaksturs, viðhald vega og snjómokstur. Umræðan um skipulagsmál sneri meðal annars að ábúðarskyldu á jörðum og skipulagningu lands m.t.t. landnotkunar undir byggð, landbúnað eða aðra starfsemi. Umræður um orkumál snerust aðallega um þriggja fasa rafmagn en einnig var komið inn á umræðu um vindorku.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn