Hrönn Grímsdóttir, Daniel Hailemariam og Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir.

Dagskrá ráðstefnunnar var afar metnaðarfull og fjöldi erinda flutt sem öll fjölluðu um fjölmenningarsamfélag með einum eða öðrum hætti. „Það var mjög margt áhugavert til umræðu,“ segir Hrönn, náms- og starfsráðgjafi hjá Austurbrú, sem var einn skipuleggjenda og raunar einn af fundarstjórum líka. „Meginþema ráðstefnunnar var menningarnæmi. Það hugtak byggir m.a. á fjölbreytni, jöfnuði, réttlæti og inngildingu (inclusion) þ.e. að innflytjendur ættu ekki bara að aðlagast okkur heldur við þeim. Við umberum ekki innflytjendur heldur fögnum við þeim og gerum hlutina saman, umvefjum fjölbreytileikann,“ segir hún.

Erasmusverkefni sem vatt upp á sig

Hrönn var ein af þátttakendum í Erasmus-verkefni sem Austurbrú tók þátt í á síðasta ári en það fjallaði um náms- og starfsráðgjöf og stöðu innflytjenda í dreifðum byggðum. Um var að ræða námsheimsókn til Svíþjóðar þar sem starfsmenn Austurbrúar hittu náms- og starfsráðgjafann Daniel Hailemariam en hann var einn af fyrirlesurum ráðstefnunnar og vakti mikla lukku. „Daniel talar af svo mikilli þekkingu um þessi mál,“ segir Hrönn. „Hann talar um stóru málin, fær fólk til að hugsa og líta inn á við. Hann ræddi t.d. um reynslu flóttafólks og hvaða óafturkræfu áhrif flótti frá heimahögum hefur á fólk. Þetta eru hlutir sem okkur er hollt að hugsa um á okkar tímum,“ segir Hrönn. Tengsl Austurbrúar við Daniel ná raunar lengra aftur í tímann. Jón Knútur Ásmundsson, verkefnastjóri, kynntist honum fyrst á tengslaráðstefnu í fullorðinsfræðslu sem fram fór í Finnlandi í desember 2019. Þar var til umfjöllunar félagslegt jafnræði í náms- og starfsráðgjöf fyrir fullorðna nemendur og var Daniel einn af fyrirlesurum ráðstefnunnar. Þá eins og nú átti hann ríkt erindi enda er hann einstaklega reynslumikill á þessu sviði, bæði sem fagmaður en ekki síður persónulega því hann flúði heimaland sitt, Eþíópíu, sem ungur maður og hóf nýtt líf í Svíþjóð. Hægt er að hlusta á viðtal sem Jón Knútur tók við Daniel á Austurland hlaðvarp.

Mynd: Hrönn Grímsdóttir, Daniel Hailemariam og Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir í Reykjavík. Hrönn og Þorbjörg eru báðar náms- og starfsráðgjafar hjá Austurbrú. 

Nánari upplýsingar


Hrönn Grímsdóttir

470 3833 // [email protected]