Fimmtudaginn 20. nóvember stóð Austurbrú fyrir árlegum haustfundi ferðaþjónustunnar. Hann var haldinn í Frystiklefanum hjá Blábjörg Resort á Borgarfirði eystra. Fundurinn var vel sóttur en nærri 50 manns úr ferðaþjónustu, sveitarfélögum og tengdum greinum sóttu hann. Á fundinum voru veitt tvö heiðursverðlaun fyrir framlag til ferðaþjónustu á Austurlandi.
Alexandra Tómasdóttir og Sigrún Jóhanna Þráinsdóttir, verkefnastjórar áfangastaðaþróunar hjá Austurbrú, hófu dagskrána með erindi um vinnu við nýja áfangastaðaáætlun fyrir Áfangastaðinn Austurland. Að því loknu fluttu fulltrúar Hæfnissetursins, Digido og fræðsluteymis Austurbrúar erindi þar sem fræðslumál fyrirtækja og stafræn markaðssetning voru í brennidepli.
Síðdegis fóru fram kynningar í KHB Brugghúsi þar sem Alda Marín Kristinsdóttir fjallaði um Hafnarhólma, Auður Vala Gunnarsdóttir kynnti starfsemi og framtíðarsýn Blábjarga og Árni Magnússon fór yfir verkefnið Fjordbikes. Að kynningum loknum gátu þátttakendur fengið bjórkynningu hjá KHB Brugghúsi og látið líða úr sér í Musteri Spa áður en kvöldverður var borinn fram í Frystiklefanum. Kvöldinu lauk svo með stórskemmtilegu tónlistarbingói!
Eins og undanfarin ár voru veitt tvö heiðursverðlaun fyrir framlag til ferðaþjónustu á Austurlandi en alls bárust um 15 tilnefningar í hvorum flokki.
Frumkvöðullinn 2025 hlaut Björn Magnússon hjá Hreindýragarðinum á Fellabæ. Verkefnið hans hefur á skömmum tíma skapað nýja og einstaka upplifun á landsvísu og fengið afar góðar viðtökur bæði meðal heimamanna og gesta.
Kletturinn 2025 var veittur Skúla Birni Gunnarssyni og Elísabetu Þorsteinsdóttur fyrir 25 ára starf við Skriðuklaustur og Klausturkaffi. Þau hafa með elju og metnaði byggt upp mikilvægan áfangastað og verið áberandi í þróun ferðaþjónustu í landshlutanum um árabil. Þau hyggjast nú láta af störfum og voru heiðruð fyrir ómetanlegt framlag til samfélagsins.
Austurbrú þakkar fyrir góðan haustfund sem skipulagður var í frábærri samvinnu við Blábjörg Resort og KHB Brugghús.
Mynd að ofan: F.v. Björn Magnússon, frumkvöðullinn 2025, og Klettarnir 2025, þau Skúli Björn Gunnarsson og Elísabet Þorsteinsdóttir.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn