Haustfundurinn, sem haldinn er árlega, er gott tækifæri til þess að taka stöðuna eftir háönn sumarsins, leggja á ráðin um framtíðina, fá nýjar hugmyndir og treysta böndin en samstarf er mikilvægur hluti þess að ferðaþjónusta á svæðinu vaxi og dafni.

Dagskráin var bæði þétt og spennandi. Farið var í skoðunarferð um Eskifjörð og Norðfjörð þar sem Sævar Guðjónsson og Berglind Steina Ingvarsdóttir, ferðaþjónustubóndar á Mjóeyri, sýndu og sögðu frá uppbyggingunni sem átt hefur sér stað á síðustu árum en þau hafa byggt upp heilsársferðaþjónustu á Eskifirði ásamt því að reka veitingastað í hinu sögufræga Randulffssjóhúsi í útbænum.

Á Norðfirði tók fjölskyldan á Skorrastað á móti hópnum en þau reka fyrirtækið Skorrahesta og hafa um árabil boðið upp á göngu- og hestaferðir og gistingu.

Haldin voru erindi og viðurkenningar veittar í Beituskúrnum og á Hildibrand í Neskaupstað þar sem orkusprengjan og frumkvöðullinn Ragnhildur Ágústsdóttir, sem margir þekkja sem Lady Lava, sagði frá uppbyggingu fyrirtækis hennar og eiginmanns hennar, Lava Show. Reynsla þeirra er lærdómsrík fyrir þá sem hyggja á nýsköpun i ferðaþjónustu en líka fyrir þá sem rekið hafa fyrirtæki um lengri tíma. Í erindi hennar kom m.a. skýrt fram að úthald og trú á verkefninu, einkum þegar á móti blæs, hafi komið fyrirtæki þeirra á þann stað sem það er nú.

Þá kynnti Austurbrú líka sína vinnu og sýn í markaðsmálum fyrir svæðið. Sagt var frá verkefninu Matarauður Austurlands en möguleikar þess í sambandi við ferðaþjónustu eru miklir. Fundargestir, sem voru um þrjátíu talsins, lögðust svo yfir þróun nýrra ferðaleiða um Austurland, ekki síst að vetrarlagi, og voru umræðurnar gagnlegar fyrir okkur hjá Austurbrú.

Að lokum tók SÚN, Samvinnufélag útgerðamanna í Neskaupstað, á móti hópnum. Sagt var frá aðkomu félagsins að uppbyggingu í bænum sem hefur og mun í framtíðinni nýtast við uppbyggingu ferðaþjónustu.

Næsti stóri viðburður í ferðaþjónustu eru svo Mannamót í janúar sem er árleg ferðakaupstefna haldin er af Markaðsstofum landshlutanna. Á Mannamótum hafa Austfirðingar einatt vakið athygli fyrir sameiginlega ásýnd, samvinnu og góða þátttöku í þessum stærsta viðburði í íslenskrar ferðaþjónustu.

Nánari upplýsingar


Alexandra Tómasdóttir

865 4277 // [email protected]


Sigfinnur Björnsson

470 3812 // [email protected]