Viðburðahelgin „Okkur að góðu“
Á Matarmóti söfnuðust saman matvælaframleiðendur af Austurlandi og kynntu vörur sínar fyrir veitinga- og söluaðilum, ýmsum hagaðilum og fleirum. Matarmótið var hluti af viðburðahelginni Okkur að góðu sem hófst fimmtudaginn 30. september á ráðstefnunni Nordic Food in Tourism og endaði á úrslitum í hugmynda- og nýsköpunarkeppninni Hacking Austurland.
Matarauður AusturlandsTengslamyndun
Tilgangur Matarmótsins var að ná samtali á milli matvælaframleiðenda og þeirra sem selja og framreiða matvælin og þannig mynda tengingar á milli. Segja má að Matarmótið hafi farið fram úr björtustu vonum en alls voru kynntu 25 matvælaframleiðendur og hagsmunaaðilar vörur sína og starfsemi og um 150 gestir sóttu mótið. Það er samdóma álit allra; skipuleggjenda, framleiðenda og gesta, að Matarmótið hafi heppnast einstaklega vel og náð fram þeim markmiðum sem til var ætlast.
Frá harðfiski yfir í handverksís
Verkefnið Matarauður Austurlands hefur verið eitt af föstu verkefnum Austurbrúar allt frá haustinu 2019 og eitt af markmiðum þess var að halda Matarmót til að mynda tengingar milli matvælaframleiðenda og þeirra sem selja og framreiða mat. Það var ánægjulegt að jafnt smáframleiðendur og stórframleiðendur á Austurlandi sáu sér hag í að taka þátt í mótinu og þannig náðist að sýna þá fjölbreyttu matvælaframleiðslu sem finna má á svæðinu. Til kynningar var allt frá hefðbundum matvælum, t.d. harðfiski, yfir í handverksís. Framleiðendur á mótinu voru farnir að stinga saman nefjum og skipuleggja samstarf og verður fróðlegt að fylgjast með því sem út úr því kemur.
Hlaðvarp
Í tilefni Okkur að góðu framleiddi Austurbrú fjóra hlaðvarpsþætti. Umsjónarmaður þeirra er Jón Knútur Ásmundsson.
Hacking Austurland – Fjallað um lausnamótið Hacking Austurland þar sem markmiðið er að efla frumkvöðlastarf og sköpunarkraft á svæðinu og þannig stuðla að nýjum verkefnum og viðskiptatækifærum..
Nordic food in tourism – Afrakstur þriggja ára vinnu við að kortlagningu stöðu norrænnar matargerðar og framtíðar í sjálfbærri matarferðaþjónustu var kynntur á ráðstefnunni Nordic Food in Tourism.
Matarmót I – Rætt er við skipuleggjendur Matarmótsins, verkefnastjóra Matarauðs Austurlands.
Matarmót II – Talað er við austfirska frumkvöðla í matargerð, veitingamenn og aðra góða gesti Matarmótsins.