Ólafur Árnason

Þið þurfið sífellt að minna á framtíðarsýnina

„Það má ekki bara undirrita plaggið og gleyma því svo. Þetta er ekki skýrsla til að setja ofan í skúffu. Nú byrjar ballið.“

Skipulagsstofnun fékk það vandasama verkefni að fara yfir tillöguna á nokkrum vinnslustigum málsins. „Við erum með sérfræðinga sem – svona í stóru myndinni – yfirfara form og efni tillögunnar. Við berum saman við aðrar svipaðaðar áætlanir og leiðbeinum eins og við getum. Gefum góð ráð um hvar megi skerpa á hlutum og annað slíkt.“

Ólafur segir svæðisskipulög hafa mikla þýðingu. „Þau eru gríðarlega mikilvæg,“ segir hann. „Að marka langtímastefnu er svo gott stjórntæki og ávinningurinn er mikill fyrir Austurland. Í fyrsta lagi er þessi sameiginlega framtíðarsýn hvati til samvinnu og samstarfs meðal íbúa og fyrirtækja. Skipulagið minnkar þannig svæðið í vissum skilningi og það verður til sterk tilfinning fyrir landshlutanum. Í öðru lagi styrkir skipulagið sveitarfélögin sem eina heild út á við um mikilvæg mál. Með svæðisskipulagi komið þið fram sem ein rödd varðandi mikilvæg málefni t.d. gagnvart ríkinu eða öðrum hagsmunaaðilum. Í þriðja lagi er skipulagið líka að styðja við og er umgjörð utan um aðrar áætlanir. Þarna er komin skýr sýn til að vinna með inn í t.d. aðalskipulag hvers sveitarfélags. Þá hefur sýn og andi svæðisskipulagsins áhrif á aðrar áætlanir eins og t.d. sóknaráætlun eða byggðaáætlun.“

Fleiri fréttir

Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!

Skoða fréttasafn