Austurbrú, í samstarfi við Ferðamálastofu og Íslandsstofu, stendur að verkefninu Invest in Austurland sem miðar að því að laða að aukna fjárfestingu í ferðaþjónustu. Samstarfsverkefnið er liður í þróun og uppbyggingu Áfangastaðarins Austurlands með það að markmiði að lengja ferðamannatímabilið á Austurlandi sem og byggja undir eflingu þjónustu sem nýtist bæði gestum og heimamönnum.
Þann 11. nóvember sl. bauð hópurinn fjárfestum og fjármögnuaraðilum til fundar í Vinnustofu Kjarvals í Austurstræti í Reykjavík þar sem verkefnið var kynnt og vefur þess opnaður. Var þessi staðsetning í höfuðborginni valin vegna menningarlegrar tengingar Kjarvals við Austurland en mörg sumur kom Kjarval austur og málaði margar af frægustu myndum sínum í Kjarvalshvammi skammt frá Ketilsstöðum í Hjaltastaðaþinghá. Fundurinn var vel sóttur og augljóst að áhugi er á frekari upplýsingum um fjárfestingatækifæri í ferðaþjónustu á Austurlandi.
Jóna Árný segir Austurland tilbúið að taka næstu skref í frekari vexti í ferðaþjónustu: „Með þessum fundi og verkefni erum við að efla tengsl okkar við fjárfesta. Við höfum nýtt tímann vel í covid, sveitarfélögin unnið mjög gott svæðisskipulag þar sem þessi tækifæri eru einmitt dregin fram auk þess sem við eigum áætlun fyrir áfangastaðinn Austurland og ýmiskonar tölfræði og efni sem er forsenda þess að fjárfestar geti skoðað tækifærin á svæðinu. Við höfum unnið að því að fá beint flug frá meginlandi Evrópu til Egilsstaðaflugvallar. Þýska flugfélagið Condor mun í vor hefja vikulegt flug til Egilsstaða og Akureyrar frá Frankfurt, einum sterkasta millilandaflugvelli í Evrópu. Í samtölum okkar við ferðaskrifstofur á þýska markaðnum heyrum við af miklum áhuga á að bjóða upp á nýjar ferðir með áherslu á hinn helminginn af landinu, þ.e. austurhluta þess. Tímapunkturinn til að fara í enn frekari uppbyggingu greinarinnar á Austurlandi er núna!“
Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri ferðaþjónustu hjá Íslandsstofu, tekur undir þetta. „Fyrir erlenda fjárfesta skiptir aðgengi að traustum gögnum og upplýsingum miklu máli svo við fögnum þessu framtaki Austurbrúar,“ segir hún. „Ísland hefur markað sér sterka stöðu sem áfangastaður og nú getum við fylgt því eftir gagnvart fjárfestum til að byggja upp sjálfbæra ferðaþjónustu um land allt.“
Á fundinum flutti Sigríður erindi ásamt þeim Skarphéðni Berg Steinarssyni, ferðamálastjóra, Jóni Birni Hákonarsyni, bæjarstjóri Fjarðabyggðar og Jónu Árnýju Þórðardóttur, framkvæmdastjóra Austurbrúar. Auk þess voru áhugaverð innlegg frá ýmsum aðilum sem reynslu hafa af uppbyggingu á svæðinu eða sýnt hafa fjárfestingu á Austurlandi áhuga.
Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri, segir:
„Lítil fyrirtæki og frumkvöðlar hafa einkennt íslenska ferðaþjónustu til þessa. Það eru hins vegar tækifæri fyrir stærri fjárfesta að koma að rekstri í ferðaþjónustu, bæði með eigið fé og þekkingu. Austurland á nóg inni og þar eru fjölmörg áhugaverð tækifæri fyrir fjárfesta. Þeir þurfa aðgang að upplýsingum og tölfræði um svæðið og það er það sem þetta samstarfsverkefni gengur út á.“
Dæmi um vel heppnaða fjárfestingu í ferðaþjónustu á Austurlandi er Vök Baths. Fyrirtækið hlaut í síðustu viku Nýsköpunarverðlauna ferðaþjónustunnar árið 2022, en Samtök ferðaþjónustunnar afhenda verðlaunin árlega. „Vök Baths er mjög gott dæmi um mikilvægi þess að við hugsum ekki aðeins um það að dreifa ferðamönnum um landið heldur að dreifa fjárfestingum og uppbyggingu um landið,“ segir Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Vök Baths.
Mynd: Frá afhendingu Nýsköpunarverðlauna SAF. F.v. Eliza Reid, forsetafrú; Jóna Árný Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar; Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri; Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, fagstjóri Íslandsstofu; Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Vök Baths; Hilmar Gunnlaugsson og Ívar Ingimarsson, stjórnarmenn Vök Baths og Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. (SAF/EÁ)
Frekari upplýsingar um Invest in AusturlandFrá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn