Sara Elísabet Svansdóttir hefur verið ráðin sem verkefnastjóri umhverfis- og skipulagsmála hjá Austurbrú en starfið var auglýst í vor og ráðið í stöðuna fyrr í þessum mánuði. Hún gengdi áður starfi sveitarstjóra Vopnafjarðarhrepps og það er með mikilli ánægju sem við bjóðum hana velkomna til Austurbrúar.
Meðal verkefna Söru verða t.d. verkefnastýring stærri og minni verkefna sem tengjast verkefnum Austurbrúar og Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, ráðgjöf og stuðningur við frumkvöðla en helsta verkefni Söru snýr að umsjón með umhverfis- og skipulagsmálum og verkefnum á því sviði. Fyrirséð er að slíkar áherslur verði fyrirferðarmeiri í starfsemi Austurbrúar á næstu árum en ný sóknaráætlun landshlutans, sem lögð verður lokahönd á síðar á þessu ári, nýtur fulltingis umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis og mun áætlunin bera þess skýr merki og fjölga verkefnum Austurbrúar á sviði umhverfis- og loftslagsmála.
Sara er mörgum Austfirðingum að góðu kunn. Hún hefur verið virkur þátttakandi í sveitarstjórnarmálum eystra síðustu árin og gegndi m.a. starfi sveitarstjóra Vopnafjarðarhrepps á árunum 2020 til 2024. Hún hafði áður starfað sem sérfræðingur í gæðamálum hjá bílaumboðinu Öskju, hún var markaðsstjóri hjá SagaMedica og verkefnastjóri hjá Icelandair svo eitthvað sé nefnt en Sara er verkfræðingur að mennt.
Hún er fjörutíu og tveggja ára gömul, fædd og uppalin í Reykjavík en hefur búið á Vopnafirði ásamt eiginmanni og tveimur börnum síðan 2019. Sara mun hafa starfsstöð í sínum heimabæ en vinna þétt með öðrum verkefnastjórum Austurbrúar þvert á póstnúmer eins og venjan er hjá okkur. Sara mun hefja störf 15. ágúst og segist spennt að taka þátt í áframhaldandi eflingu Austurlands sem öflugs áfangastaðar og heimkynna.
Við bjóðum hana hjartanlega velkomna í teymið!
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn