Dagana 14.-16. október hittust þátttakendur Evrópuverkefnisins Natalie í Las Palmas á Gran Canaria til þess að ræða framgang verkefnisins fyrsta árið og næstu skref. Að verkefninu standa 43 fyrirtæki og stofnanir víðs vegar úr Evrópu með það að markmiði að þróa náttúrutengdar lausnir sem auka eiga viðnámsþrótt svæða gegn áhrifum loftslagsbreytinga. Verkefnið er til fimm ára og er styrkt af Horizion áætlun Evrópusambandsins.
Á Austurlandi sem er eitt af tilvikssvæðum (case stydy) verkefnisins. Austurbrú sinnir hlutverki tengslamiðlunar og setur upp vinnustofur, auk þess að taka þátt í skipulagningu og gagnaöflun sem varðar svæðið. Fyrir hönd Austurbrúar fóru á fundinn Tinna Halldórsdóttir yfirverkefnastjóri og Gabríel Arnarsson verkefnastjóri. Íslenska svæðisteymið samanstendur af Matís sem leiðir verkefnið fyrir íslenska svæðið og sérfræðingum frá háskólunum í Exeter og Tromsö sem sjá um gerð líkana og hanna tillögur að lausnum.
Á fundinum var farið yfir stöðu verkefnisins og unnið í hópum með ýmislegt sem gera á á næsta starfsári en einnig blönduðu gestgjafar inn í dagskrána heimsóknum á áhugaverða staði. Þátttakendur í verkefninu hittast á fjarfundum reglulega og sumir í hverri viku en sumt er betra að gera þegar allir hittast í eigin persónu og svona fundir eru því nauðsynlegur hluti af verkefninu.
Í kringum 100 manns tóku þátt í fundinum og voru fulltrúar flestra samstarfsaðila mættir, ásamt hagsmunaaðilum á svæðinu og fleiri hluteigandi. Umræður fundarins snerust m.a. að eftirfarandi:
Verkefnið nær til margra þátttakenda í ólíkum löndum þar sem þarfir eru fjölbreyttar. Að fara yfir stöðuna saman gaf því tækifæri til þess að fá innsýn í hvað er í gangi annars staðar í Evrópu. Hvert rannsóknarsvæði uppfærði samstarfsaðila um hvað hafði gengið vel og hverjar helstu ákoranirnar hefðu verið undanfarið ár.
Mikilvægur þáttur verkefnisins er að tengjast hagsmunaaðilum á svæðinu og til þess eru haldnar fjórar vinnustofur. Sú fyrsta hefur þegar farið fram en á fundinum var farið yfir hvernig væri hagkvæmast að halda þá næstu.
Í lok fundar gafst þátttakendum tækifæri til þess að setjast saman niður og skipuleggja næstu skref. Í svona umfangsmiklu verkefni eru margir þættir sem þarf að hafa yfirsýn yfir og því mikilvægt að allir séu á sömu blaðsíðu.
Að loknum löngum og ströngum vinnudögum halda verkefnaaðilar inn í næsta starfsár og má búast við því að verkefnið verði sýnilegra á okkar svæði þegar farið verður í meiri vinnu með hagsmunaaðilum og samstarfsaðilar okkar munu einnig koma í heimsókn og kynna sér svæðið og aðstæður hér.
Verkefnið Natalie snýr að þróun náttúrutengdra lausna sem auka eiga viðnámsþrótt svæða gegn loftslagsbreytingum. Austurland var valið sem sjöunda rannsóknarsvæði (CS7) verkefnisins og þátttakendur í CS7 eru Matís, Austurbrú, University of Tromsø og University of Exeter. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu verkefnisins og LinkedIn.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn