Verkefnið Þetta er samfélagið okkar hjá Austurbrú hlaut nýverið styrk úr Þróunarsjóði innflytjendamála fyrir árið 2025. Styrkinn veitir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og er hann ætlaður verkefnum sem stuðla að inngildingu og virkri þátttöku innflytjenda í íslensku samfélagi. Alls fengu tuttugu verkefni úthlutað að þessu sinni.
Markmið verkefnisins er að styðja við inngildingu fólks með fjölbreyttan menningarlegan bakgrunn á Austurlandi og auka virkni þeirra í samfélaginu. Meðal annars er stefnt að því að efla aðgengi að upplýsingum, valdefla einstaklinga til þátttöku í samfélagsmálum og skapa vettvang fyrir samráð, samtal og samstarf milli ólíkra hópa.
Verkefnið styður þannig við framtíðarsýn Austurlands eins og hún birtist í svæðisskipulagi landshlutans 2022–2044 og Sóknaráætlun Austurlands 2025–2029, þar sem lögð er áhersla á fjölmenningu, samfélagsþátttöku og aukin lífsgæði allra íbúa. Í stefnu Austurbrúar kemur jafnframt fram að stofnunin vinni að hagsmunum íbúa með því að styðja við þróun fjölbreyttra og sjálfbærra samfélaga með mannréttindi, jafnrétti og virðingu að leiðarljósi.
Vinna við verkefnið er nýhafin og verður sagt frá því betur á næstu vikum.
Tinna Kristbjörg Halldórsdóttir
Guðrún Ásgeirsdóttir
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn