Ísland varð frjálst og fullvalda ríki með gildistöku sambandslaganna 1. desember 1918.  Frá því eru liðin hundrað ár og þess hefur verið minnst um land allt á árinu með ýmis konar viðburðum.

Austurland er ekki undanskilið og þar var hrint í framkvæmd metnaðarfullu verkefni sem ber heitið „Austfirskt fullveldi – Sjálfbært fullveldi?“ Þar tóku átta austfirskar mennta-, menningar- og rannsóknastofnanir sig saman til að skoða á nýstárlegan hátt austfirskt fullveldi, sjálfbærni og tengslin þar á milli.

Meðal  afurða  verkefnisins voru fjórar sýningar sem settar voru upp í Tækniminjasafni  Austurlands,  Randúlffssjóhúsi,  Safnahúsinu  á  Egilsstöðum  og  Skriðuklaustri.  Sýningarnar  opnuðu  þann  17.  júní.  Þær  sýndu  skáldaðar  en  trúverðugar  sögur  barna  frá  árinu  1918  annars  vegar  og  2018  hins  vegar,  innblásnar  af  heimsmarkmiðum  Sameinuðu  þjóðanna  um  sjálfbæra  þróun.

Hér fyrir neðan má sjá sýninguna sem sett var upp í Tækniminjasafni Austurlands á Seyðisfirði þar sem unnið var með  markmiðin sjálfbærar borgir og samfélög, menntun fyrir alla, nýsköpun og uppbygging og alþjóðleg samvinna en markmiðin má kynna sér hér

1918

Ég  heiti  Þórhildur  og  á  heima  á  Seyðisfirði.  Pabbi  minn  rekur  verslun  og  móðir  mín  er  í  kvenfélaginu  og  er  mjög  upptekin  þar.  Ég  á  fjögur  systkini  og  svo  eru  hér  í  húsinu  föðurafi  minn,  systir  mömmu,  tvær  vinnukonur  og  stundum  dveljast  hjá  okkur  innanbúðarmenn  sem  eru  að  vinna  í  versluninni  hjá  föður  mínum.  Ég  hef  mjög  mikinn  áhuga  á  ljósmyndun  og  hef  fengið  að  fylgjast  með  á  ljósmyndastofunni  hér  í  bænum.  Það  hefur  verið  mjög  fróðlegt.  Ég  fékk  pabba  til  að  gefa  mér  notuð  ljósmynda-  og  framköllunartæki  og  er  að  æfa  mig  að  taka  myndir.  Mig  langar  að  fara  til  Danmerkur  að  læra  meira  um  ljósmyndun  þegar  ég  verð  stærri.  Það  er  svo  flott  að  hægt  sé  að  færa  það  sem  maður  sér  yfir  á  blað.  Tækniframfarir  eru  allt  um  kring  og  möguleikar  mannshugans  óendanlegir.  Það  kom  skip  í  gær  frá  Danmörku  og  nokkrir  með  því.  Það  var  búið  að  vera  í  sóttkví  í  nokkra  daga  út  af  spænsku  veikinni  áður  en  það  fékk  að  leggjast  að  landi.  Við  fengum  líka  dönsku  blöðin.  Það  er  leiðinlegt  að  ekki  er  lengur  gefið  út  blað  hér  á  Seyðisfirði,  mér  fannst  framhaldssagan  í  því  svo  skemmtileg.  Mamma  og  pabbi  lásu  líka  allar  fréttirnar  og  stundum  sendu  þau  inn  greinar  sjálf.  Það  er  mikið  vöruúrval  í  versluninni  hans  pabba,  fatnaður,  matvörur,  byggingarvörur,  bækur  og  margt  fleira.  Mér  finnst  gaman  að  fylgjast  með  þegar  sendingarnar  eru  opnaðar  og  sjá  hvað  leynist  í  þeim.  Ég  laumast  líka  oft  í  kandísinn  í  búðinni. Móðir  mín  er  formaður  kvenfélagsins,  þær  eru  að  undirbúa  kirkjubyggingu  hér  inn  í  bæ  og  eru  að  gera  alls  konar  hluti  til  að  safna  fjármunum  til  þess.  Síðast  var  leikrit  sett  upp  og  grímudansleikur  var  haldinn  í  vetur  fyrir  börn  og  fullorðna.  Það  var  virkilega  skemmtilegt.  Pabbi  er  í  bæjarstjórninni  og  oft  að  hitta  alls  konar  menn.  Ég  og  systkini  mín  erum  í  stúku.  Þar  lærum  við  marvíslega  hluti  og  heitum  því  að  drekka  aldrei  áfengi.

2018

Ég  er  kölluð  Hilda  og  er  12  ára.  Mamma  og  pabbi  eru  skilin.  Ég  á  einn  bróður  sem  er  7  ára  og  eina  systur  sem  er  4  ára.  Mamma  vinnur  í  búðinni  hér  á  Seyðisfirði.  Hún  vinnur  mjög  mikið  og  skúrar  þar  líka  eftir  lokun.  Ég  er  með  sérherbergi  en  systkini  mín  sofa  inni  hjá  mömmu  því  við  leigjum  út  hitt  herbergið  til  túrista  á  sumrin.  Það  er  gaman  að  hitta  alls  konar  fólk  frá  öðrum  löndum  og  ég  er  orðin  mjög  góð  í  ensku.  Mig  langar  að  ferðast  mikið  þegar  ég  verð  stór.  En  við  förum  aldrei  til  útlanda,  höfum  ekki  efni  á  því.  Mér  finnst  ekkert  sérstaklega  gaman  í  skólanum,  ég  er  lesblind  og  stundum  lengi  að  hugsa.  Ég  á  góða  vini  í  skólanum  sem  eru  líka  með  mér  í  fótbolta  og  blaki.  Þau  koma  samt  ekki  með  mér  á  opnanir  í  LungA  skólanum,  ég  fer  ein  þangað.  Ég  á  góða  vini  þar  líka.  Það  er  örugglega  gaman  að  vera  listamaður  en  kannski  erfitt  líka.  Þau  eiga  oft  ekki  mikinn  pening.  Mig  langar  að  eiga  peninga  þegar  ég  verð  stór.  Mig  langar  að  læra  hárgreiðslu  og  held  ég  fari  til  Akureyrar  að  læra  það.  Mamma  skammar  mig  oft  og  segir  að  ég  sé  of  mikið  í  símanum  og  á  netinu.  En  mér  finnst  það  ekki,  maður  verður  að  vita  hvað  hinir  eru  að  gera  og  segja.  Stundum  leik  ég  mér  við  Tönju  vinkonu  og  við  erum  saman  að  gera  fíflaleg  snöpp.

Sýninguna í heild sinni má sjá á fullveldisfagnaði í Menntaskólanum á Egilsstöðum á laugardaginn.

Sjá nánar á www.austfirsktfullveldi.is

Fleiri fréttir

Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!

Skoða fréttasafn