Svæðisskipulag Austurlands 2022-2044 var undirritað á miðvikudaginn af bæjar- og sveitarstjórum á Austurlandi og settum forstjóra Skipulagsstofnunar, Ólafi Árnasyni. Hann segir svæðisskipulagið mikilvægt fyrir framþróun landshlutans og brýnt að halda því á lofti þegar farið er í aðra áætlanagerð á svæðinu.
Ólafur var líkt og aðrir sem viðstaddir voru undirritunina ánægður með áfangann. „Til hamingju með þetta plagg,“ sagði hann við tilefnið. „Mér líst vel á það og það er mjög gott að sjá þessa sameiginlegu sýn sem sveitarfélögin á Austurlandi hafa markað sér.“
Hann segir að svæðisskipulög séu alltaf einstök í eðli sínu þótt hliðstæður megi finna í öðrum svæðisbundnum stefnum á Íslandi og nefnir hann þar t.d. Svæðisskipulag Snæfellesness 2014 – 2026. „Þar er áherslan lögð á samfélagið líkt og í svæðisskipulagi Austurlands en hvert svæðisskipulag er einstakt að því leyti að sveitarfélögin eru að koma sér saman um sína sameiginlegu hagsmuni sem þau ætla að móta langtímastefnu um.“
Skipulagsstofnun fékk það vandasama verkefni að fara yfir tillöguna á nokkrum vinnslustigum málsins. „Við erum með sérfræðinga sem – svona í stóru myndinni – yfirfara form og efni tillögunnar. Við berum saman við aðrar svipaðaðar áætlanir og leiðbeinum eins og við getum. Gefum góð ráð um hvar megi skerpa á hlutum og annað slíkt.“
Ólafur segir svæðisskipulög hafa mikla þýðingu. „Þau eru gríðarlega mikilvæg,“ segir hann. „Að marka langtímastefnu er svo gott stjórntæki og ávinningurinn er mikill fyrir Austurland. Í fyrsta lagi er þessi sameiginlega framtíðarsýn hvati til samvinnu og samstarfs meðal íbúa og fyrirtækja. Skipulagið minnkar þannig svæðið í vissum skilningi og það verður til sterk tilfinning fyrir landshlutanum. Í öðru lagi styrkir skipulagið sveitarfélögin sem eina heild út á við um mikilvæg mál. Með svæðisskipulagi komið þið fram sem ein rödd varðandi mikilvæg málefni t.d. gagnvart ríkinu eða öðrum hagsmunaaðilum. Í þriðja lagi er skipulagið líka að styðja við og er umgjörð utan um aðrar áætlanir. Þarna er komin skýr sýn til að vinna með inn í t.d. aðalskipulag hvers sveitarfélags. Þá hefur sýn og andi svæðisskipulagsins áhrif á aðrar áætlanir eins og t.d. sóknaráætlun eða byggðaáætlun.“
Aðspurður um góð ráð í framhaldinu stendur ekki á svari hjá Ólafi:
„Þið þurfið sífellt að minna á framtíðarsýnina þegar farið er í aðra áætlanagerð. Það skiptir máli að halda svæðisskipulaginu á lofti og vinna með það. Rifja það upp öðru hvoru og minna á þá stefnu sem er búið að samþykkja. Þetta skiptir verulegu máli. Þá þarf að vera öflugur samstarfsvettvangur til að framfylgja stefnunni og í því samhengi gegnir stofnun eins og Austurbrú mikilvægu hlutverki,“ segir Ólafur og bætir við að lokum:
„Það má ekki bara undirrita plaggið og gleyma því svo. Þetta er ekki skýrsla til að setja ofan í skúffu. Nú byrjar ballið.“
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn