Austfirðir

Óendanlega margt að skoða

„Náttúrufegurð Austurlands er engri lík og er gríðarleg auðlind þegar kemur að ferðamennsku“ – Kári Kárason, flugmaður og Austfirðingur.

Kári flaug Airbus þotunni til æfingalendinga á varaflugvöllunum á Egilsstöðum og Akureyri en aðaltilgangur flugsins var að þjálfa flugmenn þotunnar og gefa flugáhugafólki tækifæri til að sjá vélina lenda og taka á loft. Aðspurður um lendingu á Airbus A321 um hávetur á Egilsstaðaflugvelli sagði Kári það hafa gengið vel enda blíða „eins og Austurlandið er þekkt fyrir“ og aðflugið hafi verið mjög rúmt og auðvelt. „Lending á Egilsstaðaflugvelli er ekkert tiltökumál og 1850 metrar duga vel, nema í hálku og snjó. Þá þurfum við bara að nota bremsurnar meira en vélin fer létt með þetta. Það sama má segja um flugtakið. Airbus A321 gæti farið fullhlaðin með 187 farþega til Tenerife án þess að blása úr nös,“ segir Kári.

Ekki mál þar sem á að spara

Til stendur að byggja nýja akbraut á Egilsstaðaflugvelli og samkvæmt drögum að samgönguáætlun eru framkvæmdirnar fyrirhugaðar á árunum 2026-2027. Kári segir flugmenn ósátta við útfærsluna, þar sem verið sé að spara á kostnað öryggis. „Við flugmenn höfum kallað eftir því að hafa samsíða akbraut meðfram flugbrautinni til að auka skilvirkni, öryggi og geymslupláss ef fjöldi flugvéla þarf að lenda á vellinum. Öryggisnefnd FÍA (Félag íslenskra atvinnuflugmanna) hefur lagt ríka áherslu á þetta atriði en síðan sjáum við drög að akbraut sem nær aðeins meðfram helmingi brautarinnar. Þetta er ekki eitthvað sem menn geta skorið niður í nafni sparnaðar og talið sig fá næstum jafngóða útkomu. Slík lausn kemst sennilega nærri því að vera 80% af kostnaði við samhliða akbraut eftir allri brautinni en bætir nýtingu ekki nema um 20%. Flugvélar þurfa að geta komið inn á flugvöllinn á færibandi og lent með öryggi.“

Brautarljós mikilvæg

Kári byrjaði að læra flug árið 1987 þegar hann fluttist suður í menntaskóla. „Þá var farið í alla flugskóla á vellinum og farið í kynnisflug því þau voru ókeypis.“ Þá var ekki aftur snúið og fékk hann vinnu hjá Flugleiðum árið 1995 og hefur verið þar síðan. Fram af því hafði hann notið flugumferðarinnar á Norðfirði. „Mín fyrstu kynni af flugi voru að glápa út í loftið þegar Fokker F-27 vélarnar voru að lenda á Norðfjarðarflugvelli.“

Kári á margar eftirminnilegar stundir er tengjast flugi á Austurlandi og flaug hann meðal annars með starfsfólk Síldarvinnslunnar í árshátíðarferð erlendis. „Að taka flug yfir Neskaupstað á Boeing B757 með starfsfólk Síldarvinnslunnar er eitt það skemmtilegasta sem ég hef gert. Að fljúga svo stórri flugvél í firðinum fagra þar sem fjörðurinn og fjalllendið blasti við í öllu sínu veldi var ólýsanlegt.“

Í annari heimsókninni austur, fljúgandi oft sem áður, seinkaði aðeins suðurferðinni eftir mat hjá mömmu. Það var farið að rökkva og Norðfjarðarvöllur ekki útbúin neinum brautarljósum á þeim tíma. „Eftir að hafa lagt af stað aftur suður þurfti ég að snúa við stuttu seinna sökum veðurs og þá voru góð ráð dýr enda engin upplýst flugbraut á þessu svæði á þeim tíma. Veðrið var þó gott á Norðfirði þannig að ég sneri til baka og bað bróður minn að lýsa mér leiðina inn á flugvöll. Hann kom sér fyrir við brautarendann og skellti háu ljósunum á mig og náði ég að lenda á Norðfjarðarvelli í svarta myrkri.“ Í þessum aðstæðum hugsaði Kári hversu mikilvægt væri að hafa lýsingu á brautinni og undirstrikar hann mikilvægi lýsingar á öllum völlum og sérstaklega flugvöllum sem sinna reglulegu sjúkraflugi sem Norðfjarðarvöllur gerir. Eins og flestum er kunnugt hefur þetta var lagað á Norðfirði og flugbrautarljós við völlinn sem tryggja öryggi flugfarenda.

Fleiri fréttir

Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!

Skoða fréttasafn