Sigrún Júnía Magnúsdóttir

Allir geta lært tölvunarfræði ef áhuginn er til staðar

„Þetta erfitt og stundum flókið en það á ekki að stöðva neinn sem hefur raunverulegan áhuga. Ég verð seint talin mikill námsmaður, er með bullandi lesblindu, en ég er þrjósk og áhugasöm. Þá eru manni allir vegir færir“ – segir Sigrún Júnía Magnúsdóttir, bóndi og tölvunarfræðingur á Egilsstöðum.

Sigrún hefur verið sjálfstætt starfandi margmiðlunarhönnuður um árabil. Áhugi hennar á tölvunarfræði kviknaði fyrir nokkrum árum þegar hún hannaði örmerkjalesara fyrir sauðfé en meðfram tölvuvinnunni er hún bóndi í Tjarnarlandi í Hjaltastaðaþinghá og rekur þar sauðfjár- og hrossaræktarbú ásamt eiginmanni sínum. „Mig langaði eiginlega bara til að kynnast því betur hvernig ég gæti nýtt tæknina til að létta mér lífið,“ segir Sigrún en hún skráði sig í námið árið 2020 við Háskólann á Akureyri.

Þegar við heyrðum í Sigrúnu hafði hún nýlokið við lokaverkefnið sitt sem hún vann í samvinnu við Austurnet. Spennandi verkefni sem fólst í að endurskrifa söluvefinn Hlunnindi.is þar sem landeigendur geta selt leyfi til rjúpnaveiða.

Hjá Austurneti hefur hún dvalið löngum stundum við lærdóminn og fengið mikla og góða hjálp hjá starfsfólkinu svo ekki sé minnst á félagsskapinn. „Þegar maður er í fjarnámi kynnist maður samnemendum sínum ekki eins vel og maður kannski vildi,“ segir Sigrún. „Þá kom sér vel að vinna með fólkinu hjá Austurneti.“

Aðspurð um hvað einkenni góðan tölvunarfræðinemanda segir hún að áhugi á tækni sé kostur en ekki skilyrði. „Ég hef alltaf verið tækninörd, hef gaman af að taka hluti í sundur og setja þá saman aftur en ég var líka með fólki í námi sem vissi ekkert um tölvur. Það lét þekkingarleysið samt ekki stöðva sig. Þetta er fjölbreytt nám, þú getur lært forritun, viðmótshönnun, bakendahönnun og ýmislegt annað. Það er hægt að fara margar leiðir og það gerir námið spennandi.“