SSA Logo

Áramótaávarp formanns SSA

Síðasta ár var afar viðburðaríkt hjá Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi (SSA). Stjórn SSA tók á móti ríkisstjórn Íslands á Egilsstöðum í lok ágúst og hafði þá unnið afar góða undirbúningsvinnu til að koma sterkum skilaboðum á framfæri um þá miklu verðmætasköpun sem fram fer á Austurlandi. Sú sterka faglega rödd okkar varð til með því að fá ráðgjafafyrirtækið Analytica til að framkvæma efnahagsgreiningu sem kom því skilmerkilega fram hver hluti Austurlands er í útflutningstekjum sem skilar stórum hluta í sameiginlega sjóði ríkisins.

Efnahagsgreining Austurlands sýnir glögglega að íbúar Austurlands, ríflega ellefu þúsund manns eða um 2,9% af heildarmannfjölda, skapa um 23% útflutningstekna af vöruútflutningi hér á landi. Ef við bætum einnig við tekjum af erlendum ferðamönnum á Austurlandi, upp á rétt rúman 21 milljarð samkvæmt Analytica, þá hækka útflutningsverðmæti Austurlands upp í rétt liðlega 250 milljarða. Afar lág prósenta af þeirri fjárhæð skilar sér árlega í innviðauppbyggingu á Austurlandi.

Eftir yfirferð efnahagsgreiningarinnar með ríkisstjórninni fórum við yfir áherslumál Austurlands sem endurspeglast skýrt í Svæðisskipulagi Austurlands 2022 – 2044 sem allar sveitarstjórnir hafa samþykkt og Skipulagsstofnun staðfesti sl. haust. Með þeirri aðferðafræði að hafa svæðisskipulag ná sveitarfélögin að mynda sameiginlega og sterka rödd sem ýtir enn frekar undir sanngjarna uppbyggingu í takt við þá verðmætasköpun sem fram fer í fjórðungnum. Sérstök áhersla er þar lögð á hringtengingu Austurlands með göngum undir Fjarðarheiði og mikilvægi þess að hönnun og umhverfismat á göngum frá Seyðisfirði til Mjóafjarðar og yfir á Norðfjörð fari fram samhliða þeim framkvæmdum.

Atvinnulífið á Austurlandi er gríðarlega kraftmikið og fyrirséð að það muni eflast enn frekar á næstu árum og skapa enn frekari gjaldeyristekjur. Sú uppbygging kallar á enn frekari íbúafjölgun ásamt mikilvægri innviðauppbyggingu sem gerir svæðið að einu öflugu atvinnu- og þjónustusvæði. Þar má nefna fyrrnefnda hringtengingu, uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar, uppbyggingu Suðurfjarðarvegar, heilsársvegar yfir Öxi og stórbætta vetrarþjónustu á vegum Austurlands.

Sveitarfélög á Austurlandi eiga ekki að þurfa að bítast um innviðauppbyggingu. Mikilvægt er að við beitum okkur áfram sem ein heild með Svæðisskipulag Austurlands 2022 – 2044 og efnahagsgreiningu Austurlands í forgrunni. Þannig munum við ná að stórefla austfirskt samfélag og ýta samhliða undir enn frekari verðmætasköpun. Með samstöðunni myndum við kraft sem endurspeglast í sameinaðri sterkri rödd Austurlands.

Með ósk um gleðilegt nýtt ár.