Um SSA
Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) er samstarfsvettvangur sveitarfélaganna á Austurlandi og sameiginleg rödd þeirra gagnvart ríki og öðrum hagsmunaaðilum. Starf SSA byggir á sameiginlegri framtíðarsýn sveitarfélaganna eins og hún er mótuð í Svæðisskipulagi Austurlands og Sóknaráætlun Austurlands.
Í starfi sínu styðst SSA jafnframt við fagleg gögn og greiningar, þar á meðal efnahagsgreiningu Austurlands, til að varpa ljósi á stöðu landshlutans, umfang verðmætasköpunar og forsendur uppbyggingar.
Á þessum grunni vinnur SSA að fjölbreyttum hagsmunamálum Austurlands með það að markmiði að tryggja sjálfbæra þróun, jafnræði til búsetu og bætt lífsgæði íbúa.
Austurbrú annast daglegan rekstur SSA á grunni þjónustusamnings.
NánarSvæðisskipulag Austurlands 2022 - 2044
Svæðisskipulag Austurlands 2022–2044 er sameiginleg framtíðarsýn Fjarðabyggðar, Fljótsdalshrepps, Múlaþings og Vopnafjarðarhrepps. Markmið þess er að samræma stefnu sveitarfélaganna á sviði umhverfis, efnahags, samfélags og menningar og tryggja sjálfbæra þróun í þágu núverandi og komandi kynslóða. Það er langtíma stefnumarkandi áætlun sem á að framfylgja með skipulagsáætlunum hvers sveitarfélags og öðrum svæðisbundnum áætlunum. Svæðisskipulagið skilgreinir helstu áskoranir, sameiginleg gildi og framtíðarsýn sem sveitarfélögin vinna að sameiginlega.
NánarSóknaráætlun Austurlands 2025 - 2029
Sóknaráætlun Austurlands 2025 – 2029 markar stefnu og markmið fyrir þróun Austurlands næstu fimm árin. Alls eru 39 markmið sem varða allt frá samgöngum, loftslags- og heilbrigðismálum, til menntunar, nýsköpunar og ferðaþjónustu. Sóknaráætlunin er tengd Svæðisskipulagi Austurlands.
NánarVerðmætasköpun á Austurlandi
Skýrslan Efnahagsumsvif Austurlands 2025 var unnin af ráðgjafafyrirtækinu Analytica fyrir Samband sveitarfélaga á Austurlandi. Þetta er önnur efnahagsgreiningin sem framkvæmd er af sama ráðgjafafyrirtæki fyrir landshlutann og byggir hún á gögnum frá Hagstofu Íslands, ársreikningum fyrirtækja ásamt frekari útreikningum og greiningu Analytica. Þær sýna með skýrum hætti að atvinnulífið á Austurlandi skilar miklum tekjum til íslensks samfélags og býr yfir fjölmörgum vaxtartækifærum.