Athugið! Ný tímasetning.
Þann 29. apríl frá 13:00 til 15:30 ætlum við að stefna saman fólki í fundarsal Berjaya Hotels á Egilsstöðum til að ræða framtíðarsýn fyrir skíðasvæðin. Fulltrúar frá ferðaþjónustunni, sveitarfélögunum og fyrirtækjum verða með örerindi og í framhaldinu munum við vinna og spjalla saman um þetta hagsmunamál okkar allra. Við ætlum að ræða þýðingu svæðanna, framtíðarsýnina, samstarfsmöguleikana, markaðssetninguna og hvernig hægt sé að byggja þau upp til framtíðar svo þau verði með tímanum ekki einungis öflugir seglar fyrir ferðaþjónustuna heldur líka ómetanleg lífsgæði fyrir íbúa Austurlands.
Mótun framtíðarsýnar fyrir skíðasvæðin er mikið hagsmunamál fyrir samfélagið á Austurlandi. Þannig er hún mikilvæg fyrir ferðaþjónustuna á Austurlandi sem hefur verið í mikilli sókn á síðustu árum. Frekari þróun svæðanna og öflug markaðssetning er forsenda þess að hægt sé að draga að fleiri gesti yfir lengri tíma ársins þannig að Austurland verði heilsársáfangastaður á allra næstu árum.
Öflugar skíðamiðstöðvar eru líka hagsmunamál fyrir samfélagið í heild sinni. Í þeim eru fólgin gríðarleg lífsgæði fyrir fólk sem nýtur þess að stunda útivist og hafa þær því ótvírætt aðdráttarafl fyrir fólk sem vill setjast að í landshlutanum okkar og nota útivistartækifærin sem stórbrotin náttúra Austurlands hefur upp á að bjóða. Öflug skíðasvæði hvetja til hreyfingar og samskipta ólíkra aldurshópa, auka samheldni og gera lífið okkar innihaldsríkara og skemmtilegra.
Það er því mikið í húfi fyrir okkur öll!
Dagmar Ýr Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Austurbrúar, stýrir fundinum og ávarpar þátttakendur í upphafi.
Að loknum framsögunum skiptum við okkur í hópa og tökum umræðuna saman um framtíð skíðasvæðanna okkar!
Austurbrú býður upp á léttar veitingar og öll eru velkomin!
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn