Stjórnarfundur Íslandsstofu var haldinn á Hótel Héraði miðvikudaginn 20. Október. Eftir stjórnarfundinn kom starfsfólk Austurbrúar ásamt Birni Ingimarssyni, bæjarstjóra Múlaþings, inn með kynningu um starfsemi Austurbrúar og áherslur landshlutans.
Rætt var um millilandaflug frá Egilsstöðum og mikilvægi flugvallarins sem annarar gáttar inn í landið, að hægt sé að hefja ferðalagið á Austurlandi eða jafnvel að skipuleggja sig þannig að koma og brottför séu ekki frá sama flugvelli. Einnig eru samlegðaráhrifin með öðrum atvinnugreinum gríðarleg. Við erum með stórar atvinnugreinar í landshlutanum sem geta nýtt flugvöllinn til útflutnings.
Stjórn og starfsfólk Íslandsstofu fór einnig í ferð um Austurland þar sem fyrirtæki og stofnanir voru heimsótt. Fjarðabyggð kynnti hugmyndir um grænan orkugarð. Einnig voru Alcoa Fjarðarál, Síldarvinnslan, Hampiðjan, Múlinn samvinnuhús og Laxar fiskeldi heimsótt.
Stjórn og starfsfólk Íslandsstofu var afar ánægt með ferðina og áhugasamt um þá miklu uppbyggingu sem framundan er í iðnaði á Austurlandi.
Í stjórn sitja: Áshildur Bragadóttir, Ásthildur Otharsdóttir, Borgar Þór Einarsson, Helga Árnadóttir, Hildur Árnadóttir (formaður), Jens Garðar Helgason og Unnur Valborg Hilmarsdóttir.
Með stjórninni komu Pétur Þorsteinn Óskarsson, framkvæmdastjóri Íslandsstofu og Brynhildur Georgsdóttir, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Íslandsstofu.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn