Dagskrá Sumartónleikaraðar Bláu kirkjunnar liggur fyrir en að venju verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá og gæðin fyrsta flokks. Tónleikaröðin hefst miðvikudagskvöldið 3. júlí þegar Tríó Akureyrar stígur á sviðið auk orgelleikarans Þórðar Sigurðarsonar og lýkur með tónleikum Dundur 31. júlí.
Eins og alltaf verður boðið upp á metnaðarfulla dagskrá í sumar en öll sem koma fram í sumar eiga það sammerkt að vera tónlistarfólk í fremsta gæðaflokki. Leikar hefjast með tónleikum Tríó Akureyrar en þau koma fram með aðstoð orgelleikarans Þórðar Sigurðarsonar og munu flytja þjóðlög víðsvegar að úr heiminum en yfirskrift tónleikanna er „Landablanda“. Dúóið Ingibjargir samanstendur af þeim Ingibjörgu Fríðu Helgadóttur og Ingibjörgu Ýr Skarphéðinsdóttir en þær ætla að leika lög af nýrri plötu en í sinni tónlist blanda þær saman ýmsum stefnum og straumum s.s. djassi, klassík og þjóðlagatónlist.
Annar dúett, Frigg, kemur svo í kjölfarið en í honum eru Íris Björk Gunnarsdóttir og Ólína Ákadóttir og þær ætla halda tónleika undir yfirskriftinni „Mig dreymdi“ og á efnisskrá er tónlist eftir Jórunni Viðar, Lili Boulanger, Edvard Grieg og Claude Debussy. Hljómsveitin Umbra kemur svo og flytur íslensk þjóðlög í eigin útsetningum og frumsamið efni þar sem texti er sóttur í miðaldabókmenntir. Á tónleikunum í Bláu kirkjunni verður í brennidepli efni af plötunni Bjargrúnir auk nýs efnis en yfirskrift tónleikanna er „Umbra og arfurinn“. Listamaðurinn Dundur (Guðmundur Höskuldsson) slær svo botninn í sumartónleikaröðina og flytur, ásamt hljómsveit, lög af plötunni sinni „Tilvera“ sem kom út í fyrra og vakti þó nokkra athygli fyrir skemmtilegan „bræðing“ úr ýmsum áttum.
Sumartónleikaröð Bláu kirkjunnar á Seyðisfirði er fyrir löngu búin að festa sig í sessi sem fastur viðburður í menningarlífi landshlutans. Við hvetjum heimamenn og aðra gesti til að heimsækja Seyðisfjörð í sumar. Það er leitun að jafn spennandi áningastað fyrir dreifbýlisbóhema og lífsglaða heimsborgara!
Sumartónleikaröð Bláu kirkjunnar er með öfluga bakhjarla og að þessu sinni hefur hún fengið styrki frá Uppbyggingarsjóði Austurlands, sveitarfélaginu Múlaþingi, Tónlistarsjóði Rannís og Síldarvinnslunni.
Við þökkum kærlega fyrir okkur! Án aðstoðar væri erfitt að bjóða upp á jafn glæsilega dagskrá og raun ber vitni.
Heimasíða Sumartónleikaraðar Bláu kirkjunnarFrá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn