Viðtalsrannsókn

Í eigindlega hluta þessarar rannsóknar var notast við hálfstaðlaðan spurningalista (sjá viðauka) til að fá fram hugmyndir viðmælenda um menntunarþörf síns fyrirtækis og landshlutans sem heildar. Einnig var spurt um vinnuaflsþörf í dag og til framtíðar, hvernig hefði gengið að mæta henni, um samskipti fyrirtækja og stofnana við atvinnulífið, sí- og endurmenntun og framboð á henni. Þá var einnig spurt um möguleg áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar.

Alls voru tekin 17 viðtöl. Rætt var við fólk úr ýmsum atvinnugreinum, s.s. úr skógrækt, sjávarútvegi, iðnaði, ferðaþjónustu, verslun, flutningum og verktakageiranum, svo og starfsmenn ríkis og sveitarfélaga. Viðtölin voru tekin frá nóvember 2019 til febrúar 2020. 

Viðmælendur komu flestir frá miðsvæði Austurlands. Haft var samband við þá símleiðis og rannsóknin kynnt. Í framhaldinu var sendur tölvupóstur með hálfstöðluðum spurningalista og í framhaldinu ákveðinn tími til viðtals. Þau fóru ýmist fram í gegnum síma eða samskiptaforritið Microsoft Teams. Viðtölin voru hljóðrituð og rituð upp.

Spurningakönnun

Könnunin var send til fyrirtækja á Austurlandi í gegnum hugbúnaðinn Survey Monkey í mars 2020. Alls voru 375 netföng fyrirtækja sem lágu til grundavallar og bárust 90 svör. Svarhlutfall var því 24%.Könnunin samanstóð af fjórtán spurningum; ellefu sem sneru beint að menntunarþörf og þremur um bakgrunn svarenda. Spurningalistann má sjá í viðauka.

Spurningalistinn er að miklu leyti byggður á spurningum úr könnun Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri um menntunarþörf á Norðurlandi eystra. Listinn Austurbrúar var styttur nokkuð og aðlagaður eins og við átti.