Staða þekkingar

Ekki hafa verið gerðar margar rannsóknir á menntunarþörf atvinnulífsins hérlendis en nokkrar nýlegar rannsóknir og greiningar snerta þó á viðfangsefninu. Skýrsla Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands frá 2018 gefur ýmsar upplýsingar um menntun, störf, atvinnugreinar og samspil þessara þátta á vinnumarkaði. Skýrslan var liður í undirbúningsvinnu við að meta færni- og menntunarþörf á Íslandi. Í skýrslu Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri frá 2018 um færniþörf á vinnumarkaði er m.a. ályktað að Ísland sé eftirbátur Evrópuríkja hvað varðar mat á færni- og menntunarþörf á vinnumarkaði til skemmri og lengri tíma og að of lítil þekking sé hér á þróun á vinnumarkaði til lengri tíma.

Í könnun um menntunarþörf sem var gerð meðal fyrirtækja og stofnanna á starfssvæði Eyþings á árunum 2018 og 2019 kom margt gagnlegt fram. Ein helsta niðurstaðan var sú að á næstu árum myndi vanta iðnmenntað starfsfólk en líka  háskólamenntað fólki. Það var álit þeirra fyrirtækja og stofnana sem tóku þátt að af háskólamenntuðum vantaði helst tækni- og upplýsingamenntaða, verkfræðinga, kennara og hjúkrunarfræðinga.