Samþykkt um verklagsreglur fyrir fagráð Austurbrúar ses.

Um skipan fagráðs

Stjórn Austurbrúar ses. er heimilt að skipa í þriggja til sjö manna fagráð til eins árs í senn. Hlutverk fagráðs er að vera stjórn til ráðuneytis um stefnumörkun og áherslur í starfsemi stofnunarinnar. Skipan í það á að endurspegla verkefni Austurbrúar og áherslur hverju sinni. Stjórn er heimilt að fjölga í fagráði eða skipa nýja fulltrúa vegna afsagnar ef þörf
krefur.

Við val í fagráð getur stjórn haft til hliðsjónar tilnefningar stofnaðila um einstaklinga til stjórnarkjörs. Fyrst og fremst skal stjórn þó velja í fagráð til þess að auka við þekkingu, reynslu og tengsl áþeim sviðum sem stjórn telur mikilvægt hverju sinni.

Um verksvið fagráðs

Fagráð stuðlar að því að í Austurbrú verði öflugur samstarfsvettvangur atvinnulífs, menningar, menntunar og stjórnsýslu. Fagráð er stjórn Austurbrúar til ráðuneytis við að móta
stefnu og áherslur.

Fagráð skal sýna sjálfstæði við mótun tillagna ef eftir því er leitað en endanleg ákvarðanataka er í höndum stjórnar.

Um fundi fagráðs

Stjórn skal funda með fagráði eftir þörfum og eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Framkvæmdastjóri Austurbrúar boðar fundi fagráðs og stjórnar Austurbrúar í samráði við formann stjórnar. Heimilt er að boða fagráð til fundar með rafrænum hætti og skal það gert með minnst 7 sólarhringa fyrirvara. Formaður stjórnar Austurbrúar stýrir sameiginlegum fundum stjórnar og fagráðs. Jafnframt sér formaður um að fundargerðir séu skipulega færðar og að allar ályktanir og samþykktir séu rétt og nákvæmlega bókaðar.

Um kostnað við starfsemi fagráðs

Austurbrú greiðir kostnað við ferðir og dvöl fagráðsmanna vegna funda fagráðs.

Breytingar á starfsreglum fagráðs

Breytingar á verklagsreglum þessum skulu gerðar með samþykki meirihluta stjórnar og að fenginni umsögn starfsháttanefndar Austurbrúar ses.

Samþykkt á stjórnarfundi Austurbrúar 13. apríl 2016.