Það er einstaklega gaman og gagnlegt fyrir okkur hjá Austurbrú að fá nemendur í vettvangsþjálfun. Nýlega dvaldi hjá okkur Svala Björk Kristjánsdóttir sem er að læra náms- og starfsráðgjöf í Háskóla Íslands. Á lokaönn námsins taka nemendur 200 klukkustunda vettvangsnám sem Svala skipti á milli Austurbrúar og Fræðslunetsins á Suðurlandi.
Í vettvangsnáminu fylgdi Svala náms- og starfsráðgjafa Austurbrúar, henni Hrönn Grímsdóttur, í tæpar tvær vikur og tók þátt í hennar vinnu þar sem við átti. Meðal þess sem hún fékk þjálfun í var hópráðgjöf um streitustjórnun og sjálfstraust í Stóriðjuskólanum (sem við rekum á Reyðarfirði með Fjarðaráli). Hún fékk kynningu á fræðsluáætlunargerð, þá var hún viðstödd í ráðgjafaviðtölum og fékk þjálfun í að taka þau sjálf, fylgdist með raunfærnimati sjúkraliða og tók þátt í undirbúningi fyrir matið. Hún vann námsáætlun með nemanda og sat ýmsa fundi svo eitt og annað sé nefnt. „Þannig fékk hún smjörþefinn af mjög fjölbreyttu starfi náms- og starfsráðgjafa hjá Austurbrú,“ segir Hrönn sem bauð Svölu líka með sér á skíði í Oddsskarði og að sjálfsögðu í jóga en auk þess að sinna námsráðgjöf fyrir Austurbrú er Hrönn jafnframt jógakennari.
Svala Björk er frá Höfn í Hornafirði. Þar er ekki sem stendur starfandi náms- og starfsráðgjafi og gat hún því ekki verið í vettvangsnámi í sinni heimabyggð. Hún hafði áhuga á að kynnast starfsemi símenntunarstöðva og urðu Austurbrú og Fræðslunet Suðurlands fyrir valinu.
Svala er með tengingar austur en pabbi hennar bjó bæði á Eskifirði og á Stöðvarfirði um tíma. Hún þekkir því ágætlega til og hefur margsinnis komið austur á skíði með fjölskyldunni sinni. Oddsskarð er í miklu uppáhaldi!
„Vettvangsnámið var bæði lærdómsríkt og stórskemmtilegt,“ segir Svala. „Andrúmsloftið er mjög gott í Austurbrú og mér var vel tekið af starfsfólkinu. Hrönn gaf mér mikilvæga innsýn í starf náms- og starfsráðgjafa og þetta var lærdómsríkur tími. Ég lærði mikið af henni og svo er mikill bónus hversu frábær og skemmtileg manneskja hún er! Það var aldrei dauður tími í vettvangsnáminu og það eru ekki allir svo heppnir að fá jógatíma í hádeginu og skíðaferð í Oddsskarð eftir vinnu í sínu vettvangsnámi!“ segir Svala og þakkar kærlega fyrir sig. Við þökkum sömuleiðis!
Þess má geta að hún mun hafa Hrönn með sér til halds og trausts á næstu dögum þegar hún tekur að sér að stýra rýnihópavinnu með það að markmiði að þarfagreina aðstæður háskólanema á Austurlandi. Næsta skref hjá Svölu er að klára námið í vor en hún vonast til að starfa á þessum vettvangi í sinni heimabyggð í framtíðinni.
Við þökkum Svölu kærlega fyrir komuna og hlökkum til að fylgjast með henni áfram.
Frá stofnun hefur Austurbrú unnið að fjölmörgum verkefnum á sviði menningar, markaðssetningar, atvinnuþróunar og fræðslu. Kynntu þér nýjustu tíðindin!
Skoða fréttasafn