Tengsl fræðslustofnana og skóla
Í viðtölunum var sérstaklega spurt um tengsl fyrirtækja við fræðslustofnanir, um hvort þau störfuðu eftir fræðsluáætlun, hvar símenntun færi fram og fleira. Heilt yfir má segja að tengsl fræðslustofnana og skóla séu ekki mikil þótt vissulega séu undantekningar. Flestir viðmælendur sögðu sí- og endurmenntun sinnt innan fyrirtækis eða stofnunar en það voru þó fyrst og fremst stærri aðilar sem ráku sérstaka fræðslustefnu fyrir starfsmenn sína.
Kallað eftir sambandi
Fæstir viðmælendur sögðust vera í virkum samskiptum við skóla og fræðslustofnanir á svæðinu. Hér virtist ekkert annað vera á ferðinni en einhvers konar „framtaksleysi“. Þessir viðmælendur leituðu ekki eftir sambandi og ekki var til þeirra leitað af skóla og fræðslustofnunum nema að takmörkuðu leyti. Að vísu kom fram í nokkrum viðtölum að Tæknidagur fjölskyldunnar á Austurlandi sem haldinn er árlega í Neskaupstað þjóni tilgangi í þessu tilliti. Í því tilviki hafi skólinn samband og fyrirtækjum og stofnunum boðið að taka þátt.
Almennt má draga þá ályktun að viðmælendur söknuðu þess að vera ekki í meira sambandi og undir þetta tók skólameistari annars framhaldsskólans á miðsvæði Austurlands: „Þau eru ekki mikil. Skólinn býr við þá sögu, hann var og er ríkisskóli og sveitafélögin komu ekki að honum með neinum hætti en það verður alltaf svolítið öðruvísi tenging inn í þá skóla, sem er eiginlega dálítið slæmt. Það mætti alveg vera meira.“
Hann sagði einnig að innan skólanna væri ákveðinn sveigjanleiki til að búa til nám og námsbrautir til að mæta þörfum atvinnulífsins. Það hafi verið gert en það geti verið ansi erfitt að fá nemendur. Ungt fólk leiti ekki endilega í „praktískt nám“, það sé fremur fullorðið fólk sem sæki í það. Viðmælandinn tók dæmi af því þegar skólinn bjó til „skógræktarbraut“:
„Við vorum full bjartsýni og það komu miklir peningar inn. Það er ekkert langt í að þessum skógum verði slátrað og þá eykst þörf fyrir menntun sem er öðruvísi en sú sem var áður. En hverjum finnst sexí að fara í skógræktarnám á þeim aldri sem nemendur koma inn í skólann? Ungt fólk hugsar öðruvísi. Hvað hentar atvinnulífinu? Það er ekkert endilega að pæla í því. Þegar ég var úti í Noregi um 1990 var stærsti hópurinn að læra arkitektúr en það var ekkert starf laust á Íslandi fyrir þetta fólk. Þá vantaði pípara og smiði en það fór enginn í það. Það er erfitt að stýra þessu.“
„Það er aldrei hægt að kenna allt“
Einn viðmælandi frá ferðaþjónustufyrirtæki sagði að þótt sambandið við framhaldsskóla væri lítið væri hann hrifinn af spannakerfinu svokallaða en annar viðmælandi úr sama geira sagði að smæð skólanna gæti haft áhrif á framboð námsbrauta:
„Það er ekkert kennt í framhaldsskólunum hérna sem opnar huga krakkanna gagnvart ferðaþjónustu. Á sama tíma veit ég að það er aldrei hægt að kenna allt. Ég vil samt taka fram að skólarnir eru ekkert endilega að standa sig illa en það vantar ef til vill einhverja tengingu á milli.“
Viðmælandi hjá opinberri stofnun sagði sambandið við skóla vissulega ekki nógu mikið en að tækifærin væru til staðar: „Það er sjúkraliðanám í VA og kannski þarf að kynna það betur. Það stendur kannski upp á okkur, að kynna það fyrir ófaglærðu fólki í aðhlynningu og þá upp á skólann að kynna þetta framboð innan fjórðungs. Mér finnst svolítið vanta upp á það. Þarna er möguleiki, þetta er nám sem mjög margir fara í og fólk fer í þetta nám á miðjum aldri. Ég veit um töluvert af fólki sem er búið að vinna hér í nokkur ár sem ákveður svo að fara í sjúkraliðanám því þar eru launin alveg þokkaleg miðað við hvað gengur og gerist.“
Það var líka rætt um annars konar menntastofnanir, s.s. Austurbrú, en eðli málsins samkvæmt eru tengsl Austurbrúar við atvinnulífið önnur en framhaldskólanna, þ.e. vegna eðli verkefna eru tengslin óhjákvæmilega meiri en annarra menntastofnana. Þó skal tekið fram að í nokkrum tilfellum kölluðu viðmælendur eftir frekari tengslum við Austurbrú, s.s. að fá kynningu á starfi námsráðgjafa.