„Starfið leggst gríðarlega vel í mig,“ segir Þóra Gréta. „Ég er komin með verkefni í hendurnar sem er virkilega áhugavert og þarft.“ Tilgangur þess er að greina og kortleggja afleiðingar aurskriðanna á Seyðisfirði í desember 2020. Notast verður við ýmis konar gögn og fjölbreyttum aðferðum beitt við gagnaöflun til að fá sem gleggsta mynd af aðstæðum og stöðu mála á Seyðisfirði. Áhersla verður lögð á afleiðingar og áhrif út frá hugmyndinni um félagslega seiglu og lagt mat mögulega styrkleika og veikleika sem gætu haft áhrif á þróun samfélagsins á Seyðisfirði á næstu árum.

Markmiðið er að niðurstöður rannsóknarinnar gefi góða mynd af því hvaða þættir hafi helst áhrif á félagslega seiglu og hvernig styðja megi við íbúa til að auka seiglu og stuðla að jafnvægi samfélagsins á ný eftir slík áföll. „Niðurstöðurnar geta vonandi nýst íbúum á Seyðisfirði auk þess að gefa gott fordæmi fyrir önnur samfélög þar sem náttúruhamfarir kunna að verða í framtíðinni,“ segir hún og bætir við:

„Þetta er verkefni sem getur stuðlað að góðri og jákvæðri þróun á Seyðisfirði, í landshlutanum og í raun landinu öllu. Það er auðvitað mjög spennandi að sinna svo þýðingarmiklu verkefni og ég er því mjög spennt fyrir framhaldinu.“

Gott að vera í Breiðdalnum

Þóra Gréta er 29 ára gömul, fædd og uppalin á Álftanesi (nú Garðabær). Hún er með BS-gráðu í sálfræði, MA-gráðu í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf og stundar nú nám í hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Hún hefur starfað við ýmislegt í gegnum tíðina en þó mestmegnis við kennslu. Hún er búsett í Breiðdal með manninum sínum og saman eiga þau þrjú börn á aldrinum eins til sjö ára.

„Það var stórt stökk fyrir fjölskylduna að koma úr Hafnarfirðinum og flytjast þvert yfir landið en hér finnst okkur virkilega gott að vera,“ segir Þóra Gréta en hennar helstu áhugamál eru lestur, skrif, prjónaskapur, krossgátur og samvera með fjölskyldunni.

Við bjóðum Þóru Grétu velkomna til starfa!